Spurst fyrir um deiliskipulagsvinnu við KA-svæði og Lundarskóla
Ólafur Jónsson bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins lagði fram fyrirspurn á fundi bæjarráðs Akureyrar í gær, þar sem hann spurðist m.a. fyrir um hvenær vinni hefjist við breytingar á deiliskipulagi Lundarskóla og íþróttasvæðis KA vegna lagningu Dalsbrautar og hvenær sé áætlað að breytt deiliskipulag verði auglýst? Jafnframt spurðist Ólafur fyrir um hvort myndaður verði sameiginlegur samráðshópur Lundarskóla og KA í þessari deiliskipulagsvinnu?
Ólafur spurði hvort búið væri að taka afstöðu til staðsetningar innkeyrslu að Lundarskóla frá Dalsbraut? Einnig hvort gert verði ráð fyrir löglegum gervigrasvelli sunnan við íþróttahús KA í breyttu deiliskipulagi? Meirihluti bæjarráðs vísaði fyrirspurnunum til skipulagsnefndar. Ólafur og Hermann Jón Tómasson S-lista sátu hjá við afgreiðslu málsins.
Þá lagði Ólafur fram eftirfarandi bókun: "Ég undrast og hef um leið áhyggjur af því að ekki skuli vera hafin vinna við að breyta gildandi deiliskipulagi Lundarskóla og íþróttasvæðis KA vegna lagningu Dalsbrautar. Boðaðar afleiddar framkvæmdir vegna Dalsbrautar sem snúa að nýrri innkeyrslu og breytingum á skólalóð auk byggingar löglegs gervigrasvallar við Íþróttahús KA eru umfangsmiklar. Eðlilegt og nauðsynlegt er að öll skipulagsvinna vegna þessa sé unnin samtímis skipulagsferli götunnar."