Spurning hvort afléttingar séu skynsamlegar á þessum tímapunkti

„Nú þegar fyrirsjáanlegar eru afléttingar á takmörkunum í þjóðfélaginu eins og sóttkví má búast við auknum smitum, fleiri innlögnum og meiri fjarveru starfsfólks á næstu vikum. Það má velta fyrir sér hvort það sé svo skynsamlegt á þessum tímapunkti,“ segir Sigurður Einar Sigurðsson framkvæmdastjóri lækninga og handlækningasviði Sjúkrahússins á Akureyri. Tveir liggja nú inni á sjúkrahúsinu vegna kórónuveirunnar og tæplega fimmtíu starfsmenn eru fjarverandi vegna einangrunar eða sóttkvíar. Æ fleiri hafa verið að greinast á svæðinu undanfarna daga. Sjúkrahúsið á Akureyri er á hættustigi.

Sigurður segir að undanfarin tvö ár hafi mikið álag verið á sjúkrahúsið og einnig aðra sem starfa í heilbrigðiskerfinu og vissulega sé fólk almennt orðið langþreytt. Það krefjist mikils viðbúnaðar að sinna inniliggjandi sjúklingum, faraldurinn hafi líka truflandi áhrif á einkalíf landsmanna og þar með talið heilbrigðisstarfsfólk.

„Í þessari bylgju sem nú gengur yfir virðast þeir sem sýkjast ekki verða jafn veikir og af fyrri afbrigðum veirunnar en fjöldinn er það mikill að þó lágt hlutfall þurfi innlögn þá eru samt sem áður alltaf einhverjir sjúklingar sem þurfa á því að halda. Og þegar mengið er svona stórt getur það orðið nokkur fjöldi,“ segir Sigurður.  

Aldrei áður höggvið jafn stór skörð í starfsmannahópinn

Hann segir fyrri bylgjur faraldursins ekki hafa höggvið jafn stór skörð í starfsmannahópinn og sú sem nú ríkir. „Það er vissulega áskorun að manna sjúkrahúsið svo við getum sinnt nauðsynlegri þjónustu, en ekki bara Kóvid sjúklingum. Við höfum þurft að grípa til þess ráðs að fresta valaðgerðum og einnig ákveðinni starfsemi á Kristnesspítala svo við getum mætt þessari áskorun. Það er hins vegar ekki gott til lengdar að fresta þeim aðgerðum því þá lengjast biðlistar og verkefnið eftir Covid-19 verður stærra og erfiðara,“ segir hann.

/MÞÞ

 


Athugasemdir

Nýjast