Auglýst hefur verið eftir umsóknum um aðstöðu hjá Sprotasetrinu en 10-12 manns geta starfað þar í senn. Hægt verður að sækja um aðstöðu til sex mánaða, með möguleika á framlengingu. Fyrsti umsóknarfrestur verður til 4. desember næstkomandi. Hjalti Páll Þórarinsson, verkefnisstjóri VAXEY, segir stofnun Sprotaseturs VAXEY koma í kjölfar efnahagsþrenginga og samdráttar á atvinnumarkaði. „Bakgrunnur þess fólks sem stendur frammi fyrir atvinnumissi er fjölbreyttur, allt upp í að fólk hefur mikla menntun og víðtæka starfsreynslu. Með Sprotasetrinu er hugsun okkar að bjóða nýja lausn fyrir þá sem vilja takast á við ný verkefni, jafnvel stofna fyrirtæki og fá til þess stuðning í formi aðstöðu og ráðgjafar. Aðstæður á atvinnumarkaði nú um stundir krefjast þess að allt verði reynt til að spyrna við fótum, efla nýsköpun og skapa ný störf. Sprotasetrið er liður í því hér á svæðinu og er viðbót við þá starfsemi sem Vaxtarsamningur Eyjafjarðar hefur þegar með höndum," segir Hjalti.
Markmiðið að fjölga fyrirtækjum og störfum
Sprotasetur VAXEY verður á skrifstofuhæð Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar í miðbæ Akureyrar. Þeim aðilum sem fá inni á Sprotasetri VAXEY er lögð til bæði aðstaða og þjónusta frá AFE, auk þess verður þeim veitt aðstoð við aðra fjármögnun. Þar verður boðið upp á fullbúnar skrifstofur með allri þjónustu s.s. ritaraþjónustu, þrifum, símsvörun, nettengingu, fundarherbergi, ljósritun, kaffiaðstöðu og fleiru. Þar verður því glæsilegt sprotasetur fyrir 10-12 manns en auk AFE eru starfsmenn Vaxtarsamnings Eyjafjarðar og Markaðsskrifstofu ferðamála á Norðurlandi með aðsetur á hæðinni.
Markmið Sprotaseturs VAXEY er að:
Lögð verður áhersla á að skapa verðmæti með arðbærum verkefnum, skapa aðstæður til að nýta nýjustu þekkingu á hverju sviði, auka samvinnu aðila í rannsóknum og þekkingariðnaði og auka starfsþjálfun og menntun.
Umsóknareyðublöð og upplýsingar eru veittar á skrifstofu AFE og á heimasíðu, http://www.afe.is/.
Nánari upplýsingar veitir Hjalti Páll Þórarinsson, verkefnisstjóri VAXEY, í síma 460 5700.