Spennandi vetur framundan

Fyrirtæki eru að taka vel við sér og hyggjast gera starfsfólki glaðan dag nú þegar kórónuveirufarald…
Fyrirtæki eru að taka vel við sér og hyggjast gera starfsfólki glaðan dag nú þegar kórónuveirufaraldurinn er að baki. Myndir: Axel Þórhallsson/Skógarböðin

 

„Það er spennandi vetur fram undan hjá okkur,“ segir Tinna Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Skógarbaðanna. Rekstur Skógarbaðanna hefur gengið vel, stöðugur straumur gesta, bæði innlendra og erlendra var á liðnu sumri, hinu fyrsta í rekstri baðanna. „Það gekk ótrúlega vel í sumar og haustið hefur einnig verið gott.“ Skógarböðin verða áfram opin til miðnættis í allan vetur.

„Gestir eru mjög ánægðir með böðin, það vantaði afþreyingu af þessu tagi á Akureyri,“ segir Tinna. Talsvert er um að fólk komi hjólandi í böðin og eða til að njóta veitinga á veitingastaðnum Skógur Bistró sem rekin er í tengslum við Skógarböðin en hann hefur notið vinsælda. „Við bjóðum upp á dögurð um helgar sem heldur betur hefur slegið í gegn,“ segir hún. Gott útisvæði eykur á upplifun gesta sem gjarnan nýta það á góðviðrisdögum.

Stemmning á tónleikum

sk+ogarböð

Bryddað hefur verið upp á þeirri nýjung að efna til tónleika fyrir gesti Skógarbaðanna á fimmtudagskvöldum. Hvanndalsbræður riðu á vaðið, þá Rúnar EFF og  Stefán Jakobsson, Stebbi Jak og nú síðast Jazztríó Kristjáns Edeldsteins. Tinna segir að tónleikar í Skógarböðunum verði í boði af og til fram eftir haustið, þegar veður og stemmning leyfir, enda hafi þeir mælst vel fyrir.

Hún segir að greinilegt sé að hópa af ýmsu tagi, starfsmanna- og vinahópar séu að taka vel við sér nú þegar kórónuveirutímabili með sínum takmörkunum sé að baki. „Við höfum vart undan að taka við bókunum frá fyrirtækjum sem ætla að gleðja sitt starfsfólk eftir frekar fáar samverustundir undanfarin ár.“ 

Hún segir ýmislegt skemmtilegt framundan í vetur, áfram verði opið til miðnættis alla daga vikunnar og gerir hún ráð fyrir að gestir kunni vel að meta rúman opnunartíma. Fáir staðir séu betur til þess fallnir að njóta norðurljósanna sem dæmi. Þá nefnir hún að gera megi ráð fyrir að skíðafólk muni á komandi vetri nýta böðin eftir skíðaferð í Hlíðarfjall.

Tinna segir að nokkur flugfélög bjóði nú upp á bein flug til og frá Akureyri, heimafélagið Niceair þar á meðal sem verði þess valdandi að ferðamennskan verður virk í allan vetur. Hótel á svæðinu séu einnig með í boði pakka af margs konar tagi sem margir muni eflaust nýta sér.

Vetrarkort í sölu

Vetrarkort verða sett í sölu á næstunni, þau gilda frá október og fram í apríl og geta þeir sem fjárfesta í slíku korti heimsótt Skógarböðin eins oft og vilji er til og „baðrúm“ leyfir. „Við hlökkum til vetrarins og erum sannfærð um að það verði mikið að gera hjá okkur,“ segir Tinna, en um 40 manns starfa hjá Skógarböðunum.


Athugasemdir

Nýjast