Sparisjóðurinn opnar þjónustuskrifstofu á Akureyri

Örn Arnar Óskarsson ræðir við Gunnlaug Sverrisson í morgun.
Örn Arnar Óskarsson ræðir við Gunnlaug Sverrisson í morgun.

Sparisjóðurinn á Akureyri opnaði þjónustuskrifstofu að Glerárgötu 36 nú í morgunsárið og þá strax fóru nýir viðskiptavinir að koma í heimsókn. Þjónustuskrifstofan er rekin undir Sparisjóði Höfðhverfinga og til að byrja með verða þrír starfsmenn á Akureyri. Fyrstu viðskiptavinirnir voru mættir fyrir kl. 09.00 í morgun, þau Halldóra Sævarsdóttir og Haraldur Gunnþórsson.

Jóhann Ingólfsson formaður stjórnar Sparisjóðs Höfðhverfinga var að vonum ánægður með að búið væri að opna þjónustuskrifstofu á Akureyri. Auk hans voru við opnunina þau Halldór Jóhannsson varaformaður stjórnar og Jenný Jóakimsdóttir sparisjóðsstjóri. “Það er stór stund fyrir stofnun sem er 132 ára gömul að fara út í þessa opnun á Akureyri en það hefur reyndar verið draumur okkar lengi,” sagði Jóhann við opnunina í morgun. Hann sagði ánægjulegt að fólk væri farið að koma í heimsókn á skrifstofuna. “Við höfum orðið vör við mikinn áhuga síðustu daga og reyndar frá miðjum desember, þegar fyrir lá að þetta myndi gerast. Við erum mjög þakklát fyrir það og ég bjartsýnn á góðar viðtökur. Við opnum hér með þremur starfsmönnum og svo ræðst það af framhaldinu hvort við þurfum að bæta við fólki,” sagði Jóhann. Hann sagði að þegar búið væri að koma rekstrinum á Akureyri vel af stað, væri meiningin að gefa fólki kost á að gerast stofnfjáraðilar í sparisjóðnum. Sparisjóður Höfðhverfinga er næst elsta fjármálastofnun landsins.

Nýjast