Sparisjóðurinn á Grenivík mun opna þjónustuskrifstofu á Akureyri á milli jóla- og nýárs, eða strax í byrjun næsta árs. Starfsemin verður til húsa á neðstu hæðinni að Glerárgötu 36. Við erum að koma, segir Jóhann Ingólfsson formaður stjórnar Sparisjóðs Höfðhverfinga á Grenivík, um fyrirhugaða starfsemi á Akureyri.
Til að byrja með verða tveir starfsmenn á þjónustuskrifstofunni en það ræðst svo af viðbrögðum Akureyringa og nærsveitarmanna hvert framhaldið verður. Við höfum miklar væntingar enda verðum við vör við mikinn áhuga. Það hefur verið mikið að gera við að taka á móti nýjum viðskiptavinum frá Akureyri. Við vonum að framhald verði á þegar þjónustuskrifstofan opnar, þannig að hægt verði að auka umsvifin og fjölga starfsfólki. Það er beint samhengi þar á milli og eins og flestir vita að þá er Byr að renna inn í Íslandsbanka og greinilega mikil hreyfing á fólki í kringum þá yfirtöku. Eins og við höfum áður sagt þá viljum við opna sjóðinn fyrir nýjum eigendum og vonum að viðskiptamenn hans í öllum Eyjafirði, sem og aðrir, vilji fjárfesta í sjóðnum til að styðja við uppbyggingu hans, því þetta á að vera sparisjóður heimamanna. Vonandi sjáum við það geta gerst á næsta ári, sagði Jóhann.
Samkomulag var gert við Ingva Þór Björnsson sparisjóðsstjóra á Grenivík um að hann léti af störfum og hefur Jenný Jóakimsdóttir tekið við starfi hans. Þá hefur Örn Arnar Óskarsson fyrrverandi útibússtjóri Byrs á Akureyri verið ráðinn til sparisjóðsins á Akureyri.