Spáð í enska boltann: Jóhann Kristinn

Íslenskir knattspyrnuáhugamenn eru um þessar mundir að setja sig í stellingar og iða jafnvel í skinninu eftir að enski boltinn rúlli af stað. Enska úrvalsdeildin sparkast í gang á næstkomandi laugardag.

Síðasta tímabil þótti afar sérstakt þar sem „litla“ liðið Leicester skaut fjársterkum stórliðunum ref fyrir rass og stóð uppi sem sigurvegari undir stjórn Claudio Ranieri, Tottenham var í bullandi toppbaráttu allt til loka tímabilsins. Á sama tíma þóttu stórlið á borð við Manchester United og Chelsea valda miklum vonbrigðum. United endaði í 5. sæti en Chelsea voru langt frá því að verja Englandsmeistaratitil sinn og enduðu í 10. sæti.

Manchester City náðu heldur aldrei að setja mark sitt á toppbaráttuna og enduðu í 4. sæti og Arsenal sem reyndar skriðu upp í annað sætið á lokametrunum voru aldrei líklegir til að hampa titlinu og Liverpool sem skipti um stjóra á miðju tímabili endaði í 8. sæti.

Mikil eftirvænting ríkir fyrir komandi tímabili og eru margir á því að allir bestu knattspyrnustjórar Evrópu séu nú komnir í ensku úrvalsdeildina. Pep Gardiola hefur tekið við stjórnartaumunum hjá Man City, Antonio Conte ætlar að rífa upp heillum horfið Chelsea liðið, hin litríki Jose Morinho er tekinn við stjórnartaumunum hjá Man United, Jurgen Klopp hefur lyft væntingastuðlinum hjá Liverpool en hann tók við liðinu fyrir mitt síðasta tímabil. Fyrir eru svo Arsene Wenger hjá Arsenal og Mauricio Pochettino stjóri Tottenham er mjög spennandi stjóri sem þegar hefur náð góðum árangri. Það verður líka spennandi að sjá hvernig titilvörnin hjá Ranieri og Leicester tekst til en liðið mun spila í Meistaradeild Evrópu í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Stórliðin hafa líka verið að styrkja sig mikið og ausið fjármunum í nýja leikmenn.

Dagskráin.is hitar upp fyrir komandi átök og fær stuðningsmenn nokkurra liða til að spá í tímabilið.

Jóhann Kristinn Gunnarsson þjálfari kvennaliðs Þórs/KA á Akureyri ríður á vaðið:

 

Með hvaða liði heldur þú?

Liverpool
Man ekki nákvæmlega hvers vegna en eldri frændur koma líklega til greina. Svo bara hreifst maður af þessum goðum á níunda áratugnum. Svo hefur auðvitað stjóri allra stjóra, Bill Shankly mikil áhrif. Maður hefur líklega verið opinber Liverpool maður síðan 1984-5.

Hvernig leggst tímabilið í þig?

Nokkuð vel. Ég var ekki mikill aðdáandi Brendans og því leggst tímabilið vel í mig núna með Mr. Klopp í brúnni.

Hvaða lið mun koma mest á óvart?

Það verður nú varla óvart ef ég uppljóstra því! En líklega verður það Arsenal.

Hverjar eru væntingarnar til þinna manna?

Væntingar eru um meistaradeildarsæti. Það er fínt markmið og góður árangur ef næst.

Ertu ánægður með kaup sumarsins hingað til?

Það er auðvitað þannig að maður vill alltaf sjá risakaup hjá sínum mönnum. Við ráðum ekki við dósa- og flöskusöfnunina í nágrannaborginni þetta árið þannig að miðað við eyðslu þá er maður alveg sæmilega sáttur. Hefði samt viljað sjá 1-2 andlit í viðbót. Við hefðum alveg mátt sjá einn alvöru vinstri bakvörð t.d. ásamt einum heimsklassa hafsent. En best að vera ekkert of frekur.

Klopp faktorinn,- hefur hann mikið að segja í vetur?

Já örugglega. Ég er mikill stuðningsmaður hans og þeirra sem með honum starfa. Hef mikla trú á honum og held að hann fari lengra með LFC en við höfum séð undanfarin misseri.

Liverpool verðu ekki með í Evrópukeppni í ár – mun það hjálpa til í deild og bikar?

Ég veit það nú ekki. Þegar inní tímabilið er komið vilja menn spila. Liðin hafa mikla leikmannahópa og eiga að geta spilað marga leiki. Ég held að evrópukeppni hjálpi nú yfirleitt liðum frekar en hitt. Það er lélegt að vera ekki í evrópukeppni a.m.k. Verðum að snúa því við.

Veikasti hlekkur þíns liðs?

Klassískt að segja Mignolet. En ég veit ekkert um markmenn svo ég er ekki dómbær á það. Ég óttast að það sé hafsentastaðan og vinstri bakvörðurinn.

Helsti styrkur þíns liðs?

Mig grunar að það verði ekki mikið vandamál að skora mörk í vetur. Segi að það sé styrkurinn.

Hvaða lið óttast þú mest?

Ekkert sem hræðir mann óþarflega. Segjum bara Leicester til að segja eitthvað.

Eitthvað lið sem þú þolir ekki/ hvers vegna?

Man Utd. Bara.

Hver verður stjarna tímabilsins bæði hjá þínu liði og/eða í heild?

Ég hef trú á nýja hafsentinum sem kom frá Schalke. Joel Matip. Segi að hann eigi eftir að skína skært. Í heildina verður það Zlatan. Burtséð frá getu og frammistöðu.

Hvaða unga leikmann bindur þú mestar vonir við?

Marko Grujic. Hann er að koma ansi öflugur fram á sviðið hjá okkar mönnum á undirbúningstímabilinu. Ef Can telst ennþá ungur þá held ég að hann verði öflugur fyrir LFC.

Spáin:

Hvaða lið vinnur titilinn?

Man.utd – Þeir hljóta að ná honum eftir alla þessa eyðslu í menn og stjóra.

Hvaða lið verða í topp 4?

Man.Utd. Arsenal, City og Liverpool

Hvar endar þitt lið?

4.sæti

Hvaða lið falla?

Middlesborough, Burnley og Bournemouth.

Að lokum hver verður fyrsti stjórinn til að taka pokann sinn?

David Moyes.

 


Athugasemdir

Nýjast