Fluttar verða ýmsar söngperlur og dúettar eftir íslensk og erlend tónskáld, s.s. Jórunni Viðar, Sveinbjörn Sveinbjörnsson, Sigfús Einarsson, Grieg, W. A. Mozart, Bellini, Puccini, Verdi og Wagner. Aðgangseyrir er 1500 kr. en 1000 kr. fyrir tónlistarnemendur og ellilífeyrisþega. Boðið verður uppá kaffiveitingar í hléi. Una Dóra segir að söngnemendurnir fjórir séu á leið til Ítalíu í næsta mánuði ásamt Kristjáni söngkennara sínum, til að halda tónleika á vegum Associazione Soldano, sem er tónlistarfélag og umboðsskrifstofa í Brescia. Þessir tónleikar bera nafnið Le voci del Nord og verða haldnir mánudaginn 19. september og eru hluti af LeXgiornate tónleikaröðinni.
"Einnig munum við koma fram á tónleikum í Modena sunnudaginn 18. september á vegum tónlistarklúbbsins Mario del Monaco. Þetta eru minningartónleikar um mikinn tónlistarvelunnara Sergio Pagliani, sem hjálpaði mörgu ungu tónlistarfólki að taka sín fyrstu skref í tónlistarheiminum. Hann bauð Kristjáni t.d. fyrstur manna inn á alþjóðlegt svið," segir Una. Hún segir þetta jafnframt stórt og mikið tækifæri fyrir þau að koma sér á framfæri við umboðsmenn og ráðandi fólk í tónlistarlífi á Ítalíu. "Þetta er í fyrsta sinn sem ferð af þessu tagi er farin með nemendur og Kristján vonar að þetta geti orðið árlegur viðburður," segir Una. Hún útskrifaðist frá Söngskólanum í Reykjavík í vor og hef hlotið leiðsagnar Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur síðustu 5 árin þar. Í sumar hefur Una verið í einkatímum hjá Kristjáni Jóhannsyni.