Söfnun til styrktar Hjálparstofnun kirkjunnar verður í beinni útsendingu á N4 sjónvarpi föstudaginn 16. desember frá kl 20.00-22.00. Sent verður út frá Hofi. Safnað verður fyrir þá einstaklinga og fjölskyldur sem ekki hafa ráð á jólunum og geta ekk sent börn sín í frístundir og félagsstörf. Úthlutað verður svo vikuna 19. -23. desember og er allt það sem safnast lagt beint inn á reikning Hjálparstarfs kirkjunnar á Norðurlandi.
Aðalkostendur söfnunarinnar eru: N4, Vodafone, Icelandair og Bílaleiga Akureyrar. Styrktarlínur eru opnar frá kl 12:00 í dag, miðvikudag og til mánudagsins 19. Desember kl 12:00. Númerin eru: 907 1901: 1000 kr., 907 1903: 3000 kr. og 907 1905: 5000 kr. Auk þess verður númerið: 518 1800 opið meðan á söfnuninni stendur í beinni útsendingu á N4.
Á dagskrá verður létt spjall, söng- og skemmtiatriði, leikatriði frá Leikfélagi Akureyrar ásamt fleiru. Myndlistarkonan BENTE gefur innrammað RISA málverk af Hvannadalshnjúk til söfnunarinnar, þar sem allir þeir einstaklingar og fyrirtæki sem gefa yfir 150.000 kr. geta eignast. Þeir sem mæta í sófann eru meðal annars: Hvanndalsbræður, húsbandið, Kristján Þór Júlíusson og Höskuldur Þór Þórhallsson alþingsimenn, Halldór og Eiki Helgasynir afreksmenn á snjóbrettum, Gestur Einar Jónasson leikari með meiru, Sr.Arna Ýrr Sigurðardóttirsóknarpestur í Glerárkirkju, Björg Þórhallsdóttir sópran, Atli Hilmarsson þjálfari Akureyrar handbolta og Oddur Grétarsson leikmaður liðsins ásamt fleirum.
Miðar á viðburðinn eru á www.menningarhus.is og á www.midi.is en miðinn kostar litlar 1000 kr og rennur til söfnunarinnar. Árið 2006 var svipuð söfnun haldin og söfnuðust þá 4,2 milljónir króna. Stefnt er á verulega aukningu þetta árið þar sem N4 er komið á landsvísu, en fyrir fimm árum náðist N4 einungis á Norðurlandi.