Ég tel mig hvorki vera að brjóta lög, siðareglur né grunnskólalög. Ég var beðinn um að taka mér frí í gær, í dag og á mánudaginn og á að fara á fund með skólayfirvöldum á morgun,segir Snorri Óskarsson grunnskólakennari á Akureyri í frétt á mbl.is en bloggskrif hans um samkynhneigða hafa vakið hörð viðbrögð. Þetta er bara mín bloggsíða og ekkert sérstakt um hana að segja, segir Snorri. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem ummæli Snorra um samkynhneigða vekja hörð viðbrögð. Hann hefur kennt á Akureyri í tíu ár og segist aldrei hafa fengið viðlíka viðbrögð frá vinnuveitanda sínum eins og nú. Mig grunar þó, að það hafi verið undirliggjandi aðgerðir innan skólans. Ég var settur til hliðar í mínu starfi fyrir fjórum árum. Það var engin skýring gefin á því. En skólastjóri hefur alveg leyfi til að skáka fólki til, segir Snorri ennfremur á mbl.is.
Hann segist hafa skilað greinargerð til Akureyrarbæjar í dag og að hann hafi haft samband við Kennarasambandið vegna málsins til að kanna með réttarstöðu sína. Ég held þeim upplýstum. Mér finnst vart koma til greina í íslensku nútímaþjóðfélagi að mönnum sé sagt upp og brotið á þeim stjórnarskrárgreinar sem fjalla um málfrelsi, tjáningar- og trúfrelsi.