Snorri Björnsson, N4 og Bannað að dæma fengu viðurkenningu

Frá afhendingu viðurkenningana. T.v. María Ingvarsdóttir framkvæmdastjóri N4, Halldór Kristinn Harða…
Frá afhendingu viðurkenningana. T.v. María Ingvarsdóttir framkvæmdastjóri N4, Halldór Kristinn Harðarson og Heiðdís Austfjörð umsjónarmenn Bannað að dæma, Snorri Björnsson kennari og Eva Hrund Einarsdóttir formaður frístundaráðs sem veitti viðurkenningarnar. Mynd/Akureyrarbær.

Fjórða árið í röð veitti frístundaráð Akureyrarbæjar sérstakar viðurkenningar á sviði jafnréttismála á árlegri Vorkomu bæjarins sem fram fór í gær. Tilgangurinn er að vekja athygli á störfum í þágu jafnréttis í samræmi við mannréttindastefnu Akureyrarbæjar. Auglýst var eftir tilnefningum og var ákveðið að veita viðurkenningar í tveimur flokkum, til einstaklings og fyrirtækis. Auk þess var ákveðið að veita einu verkefni sérstök hvatningarverðlaun.

Snorri Björnsson hlaut jafnréttisviðurkenningu Akureyrarbæjar fyrir kennslu í kynjafræði við VMA. Snorri hefur verið kennari við VMA síðan 2010 og hefur kennt kynjafræði við sama skóla frá árinu 2013. Snorri fékk á sínum tíma styrk úr Sprotasjóði til þess að þróa áfangann og nemendur hafa tekið þátt í ýmsum verkefnum sem sum hafa ratað út fyrir skólann. Hátt í 300 nemendur hafa setið valáfangann í kynjafræði hjá Snorra en auk þess er hann virkur talsmaður jafnréttis og því bæði fyrirmynd og hvatning.

N4 hlaut jafnréttisviðurkenningu Akureyrarbæjar fyrir markvissa vinnu við jafnrétti í fjölmiðlum. Hjá N4 hefur dyggilega verið unnið að jafnréttismálum undanfarin ár. Kynjahlutföll viðmælenda í þáttum og dagskrárgerð hafa verið mæld síðan 2013. Árið 2015 var viðsnúningur þegar tvær konur tóku við sem framkvæmdastjórar og þá var tekin meðvituð ákvörðun um að rétta við kynjahlutfallið í þáttum og sett stefna þar um.

Hlaðvarpsþátturinn Bannað að dæma í umsjón Heiðdísar Austfjörð og Halldórs Kristins Harðarsonar hlýtur hvatningarverðlaun jafnréttimála. Markmiðið með þættinum er að fræðast án þess að dæma og hafa gaman af lífinu. Með ólíkum viðmælendum og skemmtilegri nálgun er þátturinn bæði skemmtun og ekki síst mikilvæg fræðsla um fjölbreyttan veruleika og viðfangsefni, þannig opna þáttastjórnendur umræðuna og minnka líkur á fordómum. „Við erum með hróshorn, stuðlum að jákvæðni og að fólk hjálpist að og standi saman,“ segja Heiðdís og Dóri KÁ umsjónarmenn þáttarins.

 

 


Nýjast