Snorri Óskarsson kennari við Brekkuskóla á Akureyri hefur verið leystur frá störfum út þetta skólaár en hann á þess kost að hefja kennslu aftur í haust ef hann hættir að tjá sig á netinu um samkynhneigð, segir í frétt á mbl.is. Snorri segist ekki ætla að hætta að blogga. Hann átti fund með skólayfirvöldum á Akureyri í dag. Á fundinum var honum veitt lausn frá störfum, en hann verður á fullum launum út skólaárið. Snorri segir á mbl.is að þetta sé gert til að lægja öldur, en hann hefur verið gagnrýndur fyrir skoðanir sínar á samkynhneigð, sem hann hefur tjáð í bloggfærslum. Ef ég blogga ekki mun ég ganga inn í næsta skólaár í friði og ró. Skilyrði er sem sé að ég bloggi ekki um svona efni. Ég tók það fram á fundinum í dag að ég ætla mér að halda áfram að blogga. Ég vil fá að njóta tjáningarfrelsis. Ég mér finnst ekki rétt af mér að selja tjáningarfrelsið fyrir kennaralaun.