Snjóframleiðsluvélarnar ræstar í næsta frostakafla
Við erum eins og kýrnar á vorin, um leið og sést snjór í Hlíðarfjalli hleypur fiðringur í skíðafólk, segir Guðmundur Karl Jónsson forstöðumaður í Hlíðarfjalli en hann á von á því að snjóframleiðsluvélar þar efra verði ræstar innan tíðar. Það er líklegt að við förum af stað í næstu lotu, segir hann og á við að þegar framundan verði samkvæmt veðurspá frostakafli sem vari í nokkra daga.
Í Hlíðarfjalli er í heiðri höfð svonefnd 5X5 regla, þ.e. að fimm stiga frost haldist í fimm daga, það sé kjörveður til snjóframleiðslu. Þegar við sjáum svoleiðis veðurspá förum við að pússa vélarnar og gera þær klárar. Guðmundur Karl segir að í fyrra hafi vélarnar verið ræstar 20. október, þar á undan 28. október og svo 4. nóvember árið 2008. Þannig að við byrjum að jafnaði í kringum mánaðamótin október-nóvember, segir hann og gerir ráð fyrir að svo verði einnig í ár.
Stefnt er að því að opna fjallið í lok nóvember og segir forstöðumaðurinn að horft sé til laugardagsins 26. nóvember. Við viljum helst ekki opna mikið seinna en það og raunar helst eitthvað fyrr, segir hann, en bendir á að veðrið skipti auðvitað öllu máli. Komandi vetur leggst vel í okkur og ég er bjartsýnn á að hann verði góður, segir Guðmundur Karl. Veturnir undanfarin ár hafi verið góðir. Síðastliðnir fjórir vetur hafa verið hver öðrum betri, einhverjir þeir bestu í sögunni.