Snjóbretta og tónlistarhátíðin Ak Extreme er í fullum gangi á Akureyri og framundan er hápunktur hátíðarinnar, Eimskips Big Jump snjóbrettakeppnin í Gilinu á Akureyri í kvöld. Byggður hefur verið glæsilegur stökkpallur í Gillinu og þar munu 16 snjóbrettamenn sýna listir sínar í kvöld og berjast um AK Extreme gullhringinn. Í fyrra mættu um 7000 manns í Gilið til að horfa á keppnina og búist er við miklum fjölda fólks í kvöld. Þeir sem ekki komast í Gilið þurfa þó ekki að örvænta, því keppnin verður sýnd í beinni útsendingu á N4 sjónvarpi og streymt beint á netið (www.n4.is) frá kl. 20-23. Það þarf því enginn að missa af þessum einstaka viðburði í ár.
Þeir sem vilja svo heyra góða tónlist, ættu að skella sér á Græna hattinn en þar kom fram í kvöld: Ugly Alex, Vintage Caravan, Endless Dark og Agent Fresco. Húsið verður opnað kl. 22.00.