Snarpur skjálfti fannst mjög greinilega á Húsavík og Akureyri

Húsavík. Mynd úr safni.
Húsavík. Mynd úr safni.

Stór jarðskjálfti reið rétt í þessu yfir á Norðurlandi eystra og fannst hann greinilega á Akureyri og Húsavík. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni varð skjálftinn kl. 14:51 og mældist 4,6 að stærð. Upptök skjálftans voru 20 km.  NV af Húsavík eða 6,8 km SA af Flatey á Skjálfanda. 

Veðurstofunni hefur borist f jöldi tillkynninga um að skjálftinn hafi fundist á Norðurlandi. Nokkrir eftirskjálftar hafa fylgt. Viðmælendur Vikublaðsins á Akureyri og Húsavík hafa lýst skjálftanum sem mjög snörpum. 

„Ég sat á sófanum og og allt í einu var eins og stórvirk vinnuvél hefði keyrt á húsið. Svo hélt húsið áfram að nötra og svo var eins og það kæmi annað stórt högg á húsið. Mér varð verulega bilt við en það hrundi ekkert niður úr hillum,“ sagði einn viðmælandi á Húsavík.

Einar Hjörleifsson, náttúruvásérfræðingur á Veðurstofu Íslands,  segir í samtali við Rúv  að skjálftinn hafi fundist víða á Norðurlandi.  Hann bendir á að jarðskjálftahrina hafi verið í gangi í langan tíma á Tjörnesbrotabeltinu norðvestan við Gjögurtá en nú hafi þessi skjálftavirkni færst nær Húsavík því skjálftinn í dag varð á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu. „Það er ekki hægt að útiloka að það verði jafnvel stærri skjálfti þarna eða jafn stór,“ segir hann.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hvetur fólk á Facebokk síðu sinni sem býr nálægt þekktum skjálftasvæðum að huga að vörnum og viðbúnaði vegna jarðskjálfta.

 

Fréttin hefur verið uppfærð


Athugasemdir

Nýjast