Snarpara og þéttara Listasumar
Listasumar 2016 verður sett með viðhöfn laugardaginn 16. júlí í Listagilinu á Akureyri en þessi norðlenska listahátíð verður nú styttri og snarpari en verið hefur síðustu árin. Var ákveðið að þétta dagskrána og láta hana ná yfir einn og hálfan mánuð í stað þriggja til þess að skerpa fókusinn og ná fram samfelldari dagskrá. Enn sem fyrr markar Akureyrarvaka laugardaginn 27. ágúst lok Listasumars.
Guðrún Þórsdóttir, verkefnastjóri Listasumars, segir að áhersla verði lögð á að virkja listafólk af heimaslóð og fá bæjarbúa á öllum aldri til að taka þátt í hátíðinni með framlagi af einhverju tagi. „Við bjóðum upp á a.m.k. þrjár listasmiðjur fyrir börn - og auðvitað fullorðna líka - þar sem kastljósinu verður beint að myndlist og skúlptúragerð, ritlist og gerð stuttmynda. Þessar smiðjur hafa verið mjög vinsælar og þær eru fleiri nú en nokkru sinni fyrr sem er auðvitað með ráðum gert því yfirleitt hafa færri komist að en vilja. Síðan verður tónlistin áberandi og sömuleiðis myndlistin því Akureyri er þekkt fyrir sitt blómlega myndlistarlíf og við virkjum það eins og frekast er kostur,“ segir Guðrún Þórsdóttir.
Þeir sem vilja leggja sitt af mörkum á Listasumri 2016 geta fengið aðstöðu án endurgjalds í sal Myndlsitarfélagsins eða í Deiglunni í Listagilinu gegn vægu gjaldi. Hugmyndir og óskir um tímasetningu skal senda á netfangið listasumar@akureyri.is. Dagskráin er enn í smíðum en hægt er að fylgjast með gangi mála á heimasíðu Listasumars, www.listasumar.is.