Starfsmaður í frístund í Síðuskóla á Akureyri hefur greinst með Covid-19. Viðkomandi fékk einkenni um liðna helgi og var smitið staðfest í gær. Starfsmenn frístundar sem unnu með viðkomandi á fimmtudag og föstudag í síðustu viku og börn sem voru í frístund þá daga hafa verið send heim í úrvinnslusóttkví.
Af þessum ástæðum verður frístund í Síðuskóla lokuð út vikuna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Akureyrarbæ.
Starfsfólk, nemendur og foreldrar þeirra eru beðnir að fylgjast vel með því hvort fram komi einkenni sjúkdómsins og er bent á að hafa samband við heilsugæsluna ef grunur vaknar um smit.
Enn er óupplýst hver uppruni smitsins er en smitrakning er hafin.