Smit á Kristnesspítala og þjónustan takmörkuð næstu vikurnar

Kristnesspítali.
Kristnesspítali.

Upp hefur komið smit hjá starfsmanni á Kristnesspítala í Eyjafjarðarsveit og þurfa 13 sjúklingar og 10 starfsmenn að fara í sóttkví. Talið er að viðeigandi sóttvörnum hafi verið fylgt sem vonandi mun lágmarka smithættu, segir á vef Sjúkrahússins á Akureyri. Gert er ráð fyrir að þjónustan á Kristnesspítala verði takmörkuð næstu tvær vikurnar.

Þeir 18 sjúklingar sem ekki þurfa í sóttkví verða útskrifaðir. Ekki er gert ráð fyrir nýjum innlögnum næstu tvær vikurnar á Kristnesspítala. Önnur starfsemi Sjúkrahússins á Akureyri er óbreytt að sinni.

Mörg smit í Eyjafjarðarsveit

Átta þekkt Covid-19 tilfelli eru nú í Eyjafjarðarsveit en frá þessu er greint á vef sveitarfélagsins. Af rakningu að dæma virðast flest smitanna að svo stöddu tengjast með beinum eða óbeinum hætti í morgunsund fyrri hluta síðustu viku.  Sveitarstjóra er ekki kunnugt um nein tilfelli af Covid 19 hjá börnum, foreldrum eða kennurum í leik- og grunnskóla. Nokkur börn og foreldrar eru þó í sóttkví, annarsvegar vegna foreldra sem eru í heimasóttkví og hinsvegar vegna nálægðar við veikan einstakling.

 


Athugasemdir

Nýjast