Smámunasafnið - Uppsöfnuð meðgjöf samfélagsins um 300 milljónir

Frá Smámunasafninu    Mynd Margrét Þóra
Frá Smámunasafninu Mynd Margrét Þóra

Smámunasafn Sverris Hermannssonar í Sólgarði í Eyjafjarðarsveit er að rekið með 15 milljón króna meðgjöf frá samfélaginu á hverju ári. Á núvirði er uppsöfnuð meðgjöf samfélagsins með safninu frá opnun þess árið 2003 um 300 milljónir króna. Þetta kemur fram í samantekt sveitarstjóra, Finns Yngva Kristinssonar.

Velferðar- og menningarmálanefnd Eyjafjarðarsveitar fór á fundi yfir skýrslu stjórnar Smámunasafnsins vegna síðasta sumars Fram kemur í skýrslunni að heildarfjöldi gesta var 2.246, þar af voru 147 erlendir ferðamenn. Alls komu 12 hópar á árinu sem er svipað og fyrir Covid en í júní kom fyrsti skólahópurinn með prófessor John Bodinger frá Bandaríkjunum.

Talsvert var fjallað um safnið í fjölmiðlum vegna fyrirhugaðrar sölu á Sólgarði og fram kemur í skýrslunni að gestir hafi almennt verið ósáttir við að það eigi að selja Sólgarð og að það stefni í að Smámunasafninu verði lokað.

Í skýrslunni kemur einnig fram að nokkuð er um merkilega muni í húsinu sem eru í eigu sveitarfélagsins en tilheyra ekki Smámunasafni Sverris Hermannssonar.

Ekki eingöngu horft til fjármuna

Í skýrslu sveitarstjóra kemur skýrt fram að engin ákvörðun hafi verið tekin um að loka safninu varanlega fyrir almenningi. Í söluauglýsingu komi fram að sveitarstjórn leggi mat á þau tilboð sem fram koma m.a. út frá framtíðarhugmyndum bjóðenda á nýtingu hússins, en ekki eingöngu þeim fjármunum sem mögulegir kaupendur bjóða í það.

Í samantekt sveitarstjóra kemur þó einnig fram að aðilar séu meðvitaðir um að sú staða geti komið upp að ekki verði mögulegt að selja húsið með þeirri áherslu að safnið eða sýningin geti verið áfram í húsinu. Komi til þess þá þarf að taka upplýsta umræðu og formlegar ákvarðanir um hvernig nálgast skuli málið.


Athugasemdir

Nýjast