Skipulagsráð Akureyrarbæjar hefur samþykkt að veita vesturhluta lóðarinnar númer sjö við Norðurtanga til að reisa smáhýsi, tímabundið til tveggja ára til að leysa búsetuúrræði fyrir heimilislausa.Erindið barst í janúar síðastliðnum en ákvörðun þá frestað. Lóðinni hefur nú verið úthlutað.
Á fundi skipulagsráðs á dögunum var samþykkt að samhliða því að reyna smáhýsin við Norðurtanga verði sett í gang vinna um varanleg búsetuúrræði fyrir heimilislausa einstaklinga í bænum í samvinnu skipulagssviðs og búsetusviðs. Jafnframt var því beint til sviðsstjóra skipulagssviðs að hafa frumkvæði að þeirra vinnu.
Krafa um að húsin víki innan tveggja ára
Þrír fulltrúar minnihlutans í skipulagsráði, frá Samfylkingu, Vinstri Grænum og Sjálfstæðisflokki lögðu fram bókun þar sem segir að úrræði á borð við þetta sé algjört neyðarbrauð í ljósi þeirrar aðstöðu sem upp er komin. „Jaðarsetning fólks sem stendur höllum fæti í okkar samfélagi er aldrei æskileg og ýtir undir vanda þeirra,“ segir í bókuninni. Tímabundið samþykkja þremenningarnir í minnihlutanum þó þessa staðsetningu smáhýsanna, með þeirri kröfu að þau víki innan tveggja ára og verði hluti af uppbyggingu íbúðarsvæða sem fyrirhuguð er um allt bæjarlandið.