Smábátasjómenn á Akureyri brosa breitt þessa dagana

Smábátasjómenn á Akureyri brosa breitt þessa dagana enda er mjög góð veiði í austanverðum Eyjafirðinum, á móts við smábátahöfnina í Sandgerðisbót. Þar voru smábátasjómenn að veiða sér í soðið í dag, á 12-15 smábátum í 10 stiga hita og rjómablíðu, eins og að sumarlagi. Eru menn helst að veiða þorsk, lísu og ýsu. Ólafur Gunnarsson trillusjómaður segir að það hafi ekki sést fiskur í firðinum í vetur, fyrr en fyrir um þremur vikum. “Við höfum heldur ekki séð hvali í firðinum að undanförnu.” Ólafur segir að mikið hafi verið um stórhveli í firðinum í langan tíma og að það sé helsta ástæðan, að sínu mati, fyrir því hve lítið var af fiski. Ólafur er með verbúð í Sandgerðisbótinni, þar sem hann hefur gott útsýni úr kaffistofunni á 2. hæð yfir smábátahöfnina og út á fjörð. “Hér voru stórhvalir í tugatali og skömmu fyrir áramót töldum við 11 hnúfubaka á firðinum, út um gluggan á kaffistofunni. Og hvalirnir étja gríðarlegt magn af fiski.” Ólafur segir að mikið sé af gulldeplu í firðinum, sem sé mjög gott æti, enda velli gulldeplan upp úr fiskinum sem trillusjómenn eru að veiða. Ólafur segir að það sé því farið að færast líf í fjörðinn en bætir við þetta sé þó óvenju snemmt, miðað við árstíma.

Nýjast