Sigrún Ragna Ólafsdóttir forstjóri VÍS afhenti í gær Slysavarnaskóla sjómanna 10 björgunarbúninga til að nota við kennslu í sjóbjörgun. Er það liður í forvarnasamstarfi sem hófst haustið 2009 og felur meðal annars í sér að VÍS færir skólanum árlega tug björgunarbúninga enda engin vanþörf á þar sem skólinn þarf að endurnýja hátt á þriðja tug björgunarbúninga á ári vegna mikillar notkunar á þeim á æfingum skólans. Markmið forvarnarsamstarfsins er að efla öryggismenningu um borð í fiskiskipum og gera störf sjómanna þannig öruggari en þau eru í dag. Helstu leiðarljósin í forvarnarsamstarfinu eru virk skráning allra atvika þar sem slys verða en líka þegar verður næstum því slys. Allt er skráð niður og gert er áhættumat á öllum störfum um borð. Þannig er hægt að greina tíðni, staðsetningu og orsakir slysanna til að stuðla að bættum forvörnum og koma í veg fyrir slys á meðal sjómann.
Samkvæmt skýrslu Rannsóknarnefndar sjóslysa árið 2011 var á því ári tilkynnt um 251 slys á sjómönnum til Sjúkratrygginga Íslands sem er um 10% fækkun á skráðum slysum milli ára. Ekkert banaslys varð í fyrra. Einungis 69 þessara slysa voru tilkynnt til Rannsóknarnefndar sjóslysa. Að meðaltali hefur verið tilkynnt um 321 slys á sjómönnum á ári til Sjúkratrygginga Íslands undanfarinn áratug. Eitt meginmarkmið samstarfs VÍS og Slysavarnaskóla sjómanna er að efla skráningu og tilkynningar slysa um borð í fiskiskipum, enda er það forsenda úrbóta og fyrirbyggjandi aðgerða. Öll þjálfun sjómanna er mikilvæg og nauðsynlegt að sjómenn beiti forvörnum á sínum vinnustað til að koma í veg fyrir slys og óhöpp. Liðsinni tryggingafélagsins er mikilvægur stuðningur við starfsemi skólans og þáttur í báráttunni gegn slysum á sjó er , sagði Hilmar Snorrason skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna við móttöku nýju björgunarbúninganna.