„Þetta er partur að því að auka gæði verkfæra sem við höfum aðgang að, til að tryggja fagmannlegt, öruggt og fljótt viðbragð við mismunandi aðstæðum,“ segir Gestur Þór Guðmundsson slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður hjá Slökkviliði Akureyrar. Liðið festi á dögunum kaup á nýrri flotdælu og prófaði hana í fyrsta sinn við stífluna í Glerá.
Gestur segir að nýja flotdælan hafi í för með sér gífurlega framför. „Við höfum ekki átt flotdælu áður, aðeins sogdælur sem þarf að hafa á landi og frá henni er lagður barki. Það er mikilvægt fyrir okkur að eiga svona dælur þegar slökkvistarf á sér stað þar sem takmarkaður aðgangur er að vatni. Meðal annars þar sem engir brunahanar eru eða önnur vatnstengi eins og i sveitum, í kringum gróðurelda og annað slíkt.,“ segir hann.
Flotdælan er sérstök að því leiti að hún flýtur á vatni og hægt er að láta hana fara langt út á það til að tryggja að ekki fari mold og annar úrgangur frá botni i dæluna og þar að leiðandi í lagnir.