Slökkvilið Akureyrar hefur fengið nýjan björgunarklippubúnað
Þorbjörn Haraldsson slökkviliðsstjóri kynnti nýja búnaðinn áður en hann var sýndur fjölmiðlafólki, fulltrúum þeirra aðila sem þátt tóku í að kaupa búnaðinn og fleirum. Um sl. áramót kom inn í mannvirkjalög að slökkvilið skyldu vera með þennan verkþátt og eiga búnað til að bjarga fólki úr fastklemmdri stöðu. "Áður höfðu slökkviliðin í raun verið með verkefnið, því einhver varð að sinna því," sagði Þorbjörn.
Hann sagði ekki hlaupið að því fyrir sveitarfélög að stökkva í slík kaup, enda sé svona búnaður dýr. Ekki fengust fjármunir frá ríkinu með þessari lagasetningu og því standi sveitarfélögin ein, með sín slökkvilið, frammi fyrir þessari fjárfestingu. "Góðir aðilar, Eimskip-Flytjandi, Icelandair og N1, lögðu til góðan fjárstyrk og einnig gaf framleiðandinn, Holmatro, í gegnum sinn umboðsaðila hér á landi, sérstaklega gott verð í búnaðinn. Þá lagði bæjarstjórn Akureyrar til þá fjármuni sem upp á vantaði við kaupin."
Sem fyrr segir er klippukraftur í klippum tæp 104 tonn, glennur hafa glennukraft upp á rúm 40 tonn, tjakkurinn getur lyft allt að 22 tonnum og petalaklippur, sem notaðar eru til að klippa t.d pedala, stýri og hnakkapúða í sundur, hafa 22 tonna klippikraft. Þorbjörn segir að með þessum búnaði sé Slökkvilið Akureyrar komið í fremstu röð slökkviliða á landinu, hvað varðar búnað til að bjarga fólki úr fastklemmdri aðstöðu.