Slippurinn DNG seldi færavindur fyrir 25 milljónir

Fjöldi fólks heimsótti bás Slippins Akureyri á sjávarútvegssýningunni.
Fjöldi fólks heimsótti bás Slippins Akureyri á sjávarútvegssýningunni.

Slippurinn Akureyri var á meðal eyfirskra fyrirtækja sem þátt tóku í sjávarútvegssýningunni í Kópavogi um síðustu helgi. Þar var skrifað undir samning við Onward Fishing, dótturfélag Samherja í Skotlandi, um að Slippurinn smíði vinnslulínu í togarann Normu Mary og hljóðar samningurinn upp um á 50 milljónir króna. Norma Mary er um þessar mundir í vélarskiptum og lengingu í Póllandi.

Anton Benjamínsson framkvæmdastjóri Slippsins segir að smíði vinnslulínunnar sé hafin og verður hún afhent nálægt jólum. Hann segir að á svona sýningu eins og sjávarútvegssýningunni, séu menn m.a. að hitta sína visðkiptavini. "Eftir að DNG kom inn í Slippinn höfum jafnframt búnað til að sýna, bæði nýjustu gerðina af færavindu og nýjan markrílbúnað, sem tengist við hefðbundnar færavindur og vakti mikla athygli. Okkar menn höfðu ekki undan að sýna og kynna þennan búnað, fyrir bæði innlendum og erlendum aðilum. Við seldum vindur fyrir 25 milljónir króna á sýningunni, þannig að við erum mjög sáttir."

Anton segir að norðlensku fyrirtækin sem þarna voru, séu almennt að standa sig vel. Á sýningunni voru m.a. Rafeyri og Frost frá Akureyri og Vélfag í Ólafsfirði. Hann segir að verkefnastaða Slippsins sé mjög góð um þessar mundir. Í skipaþjónustunni sé þó frekar rólegt framundan en mikið að gera í allri framleiðslu. "Hlutirnir eru þó fljótir að breytast. Útgerðarmenn eru aðeins að sinna grunnviðhaldi en uppbyggilegt viðhald situr á hakanum á meðan þessi óvissa í sjávarútvegsmálum ríkir."

Hjá Slippnum starfa 145 manns, sem er svipaður fjöldi og verið hefur. Fyrirtækið verður 6 ára í næsta mánuði og segir Anton að reksturinn hafi gengið vel frá upphafi. "Við höfum verið gætnir, ekki rasað um ráð fram og það hefur reynst farsælt."

Nýjast