Slegist um íbúðir á Akureyri

Algengt er að 3-5 tilboð berist í sömu íbúðirnar á Akureyri og hefur fasteignaverð hækktað að meðalt…
Algengt er að 3-5 tilboð berist í sömu íbúðirnar á Akureyri og hefur fasteignaverð hækktað að meðaltali um 15% undanfarið ár.

Mun meiri eftirspurn en framboð er á húsnæði á Akureyri. Dæmi eru um að 3-4 aðilar keppist um sömu íbúðina. Þá er alltof lítið til af minni íbúðum fyrir ungt fólk sem er að kaupa sínu fyrstu eign. Þetta segir Arnar Birgisson hjá fasteignasölunni Eignaveri um stöðuna á fasteignamarkaðnum á Akureyri. Hann segir sölu á eignum hafa verið óhemju mikla á undanförnum mánuðum.

„Síðan að Arionbanki gaf út greiningarskýrsluna um fasteignamarkaðinn, þar sem spáð var allt að 30% hækkun á fasteignum á næstu árum, þá hefur salan tekið mikinn kipp,“ segir Arnar. Hann segir töluverða hækkun hafa verið á íbúðum undanfarna mánuði. „Hækkunin síðustu 12 mánuði er í kringum 15% og og bara frá áramótum gæti hækkunin verið í kringum 5%. En þetta er vissulega misjafnt eftir stærðum og gerðum á eignum.“ Arnar segir nýlegar eignir og minni eignir vera mjög eftirsóttar og það sé hreinlega slegist um þær.

„Oft eru 3-5 tilboð í sömu eignina og þannig hefur þetta verið undanfarnar vikur. Það er langur listi af fólki sem er að bíða eftir eignum á verðbilinu 20-30 milljónir og einnig dýrari eignum.  Við hringjum í fólk um leið og eitthvað losnar. Þannig að það er skortur á íbúðum á svæðinu. Við erum farin að finna verulega fyrir því,“ segir Arnar og bætir við að núna rétt fyrir páska sé óvenjulítið af eignum á söluskrá. „Það hafa sjaldan verið jafn fáar eignir til sölu.“ Spurður segir Arnar að ekki sé mikið um að eignir seljist á yfirsprengdu verði. „Það kemur þó alveg fyrir. Eignir eru að lækka mun minna en áður og eignir fara oft á ásettu verðum og stundum eru þær að fara einhverja hundrað þúsund krónur yfir verðmat.“

Vantar sárlega íbúðir fyrir ungt fólk

Hann segir stöðuna fyrir ungt fólk sem er að fjárfesta í sinni fyrstu eign ekki vera nógu góða. Alltof lítið hafi verið byggt af minni íbúðum undanfarin ár. „Minni eignir er eitthvað sem vantar sárlega á Akureyri og ég hreinlega skil ekki af hverju ástandið er svona. Við höfum margoft bent á að það þurfi að byggja minni eignir eins og 40-60 fermetra íbúðir sem er fínt fyrir ungt fólk að byrja á. Í Naustahverfinu var byggt eitthvað af íbúðum í þessari stærð en þær seldust áður en þær voru auglýstar,“ segir Arnar.

Spurður um vinsælustu hverfin segir Arnar að Brekkan hafi ávallt verið sterk á fasteignamarkaðnum en þetta hefur þó verið að breytast undanfarin ár og það selst einnig mjög vel í Glerárhverfi. „Þetta er þó að verða aðeins dreifðara núna og í raun mikil sala allsstaðar. En það sem við höfum verið að sjá núna er að með aukningu ferðamanna eru fasteignir á Neðri-Brekkunni, Miðbænum og á Eyrinni að hækka töluvert mikið. Þetta má rekja beint til Airbnb og almennri aukningu í ferðaþjónustu.

Einnig vill fólk eiga íbúðir hérna í bænum og þá miðsvæðis. Við finnum fyrir áhuga úr Reykjavík þar sem fólki finnst mun ódýrara að kaupa hér og vill fjárfesta. Þetta eru oft fjársterkir einstaklingar og einnig t.d. lítil og stærri leigufélög,“ segir Arnar.  

-þev 

Nýjast