Slapp fyrir horn í Vaglaskógi

Fnjóská flæddi langt yfir bakka sína um liðna helgi. Mynd/Hörður Eydal.
Fnjóská flæddi langt yfir bakka sína um liðna helgi. Mynd/Hörður Eydal.

Rúnar Ísleifsson, skógavörður í Vaglaskógi, segir tjaldsvæðin hafa sloppið að mestu við skemmdir þegar mikið vatn flæddi yfir hluta svæðisins um sl. helgi. Miklir vatnavextir hafa verið á Norðurlandi undanfarin vegna hlýinda. Flætt hefur yfir vegi víða og sums staðar hafa þeir farið í sundur, til að mynda inni í Eyjafirði og við og innan við Illugastaði í Fnjóskadal.

Í Vaglaskógi þurfti að rýma neðra tjaldsvæðið í gær því Fnjóská flæddi langt yfir bakka sína. „Þetta slapp nokkuð vel. Það flæddi inn á eitt af fimm aðskildum svæðum sem við erum með. Það er á Neðra- Hróarsstaðanesið. Það er talsverður leirburður á því svæði eftir flóðið og síðan skemmdist hluti af einum vegarslóða sem gengur í gegnum svæðið,“ segir Rúnar.

Hann segir þetta ekki muni hafa teljandi áhrif á ferðasumarið í Vaglaskógi. „Ég geri ráð fyrir að við opnum Neðra- Hróarsstaðanesið í lok vikunnar á nýjan leik. Hin svæðin eru opin eins og áður,“ segir Rúnar.


Athugasemdir

Nýjast