Hjörleifur Örn nam og starfaði um árabil í Amsterdam og Berlín, stofnaði og rak lítinn tónlistarskóla, stýrði tónlistar- og brúðuleikhúsi og starfaði með þekktum slagverkshópi, Percusemble, sem hann ferðaðist með um heiminn og lék á tónleikum. Hjörleifur Örn er nú skólastjóri Tónlistarskólans á Akureyri og hefur sett svip sinn á Akureyri, bæði með eigin tónlistarsköpun og með því að gera skólann sýnilegri í samfélaginu með alls kyns viðburðum. Sjaldgæft er að í boði séu einleikstónleikar á slagverk. Tónleikar Hjörleifs Arnar á föstudag hefjast kl. 12.15 og boðið verður upp á ljúffenga súpu. Á efnisskránni er Schlagmusik 1 / Hertz eftir Georg Katzer, Prím fyrir sneriltrommu eftir Áskel Másson, Suite for Toy Piano eftir Cage og She who sleeps with a smallo blanket eftir Kevin Volans.