Slagverk í Ketilhúsinu í hádeginu á morgun

Næstu Föstudagsfreistingar í Ketilhúsinu, í hádeginu á morgun, eru spennandi fyrir allt tónlistaráhugafólk, hvaða tónlistarstefnu sem það telur sig tilheyra. Hjörleifur Örn Jónsson slagverksleikari flytur verk fyrir ýmis slagverkshljóðfæri en hann hefur getið sér gott orð fyrir slagverksleik sinn, bæði hérlendis og í útlöndum.  

Hjörleifur Örn nam og starfaði um árabil í Amsterdam og Berlín, stofnaði og rak lítinn tónlistarskóla, stýrði tónlistar- og brúðuleikhúsi og starfaði með þekktum slagverkshópi, Percusemble, sem hann ferðaðist með um heiminn og lék á tónleikum. Hjörleifur Örn er nú skólastjóri Tónlistarskólans á Akureyri og hefur sett svip sinn á Akureyri, bæði með eigin tónlistarsköpun og með því að gera skólann sýnilegri í samfélaginu með alls kyns viðburðum. Sjaldgæft er að í boði séu einleikstónleikar á slagverk. Tónleikar Hjörleifs Arnar á föstudag hefjast kl. 12.15 og boðið verður upp á ljúffenga súpu. Á efnisskránni er Schlagmusik 1 / Hertz eftir Georg Katzer, Prím fyrir sneriltrommu eftir Áskel Másson, Suite for Toy Piano eftir Cage og She who sleeps with a smallo blanket eftir Kevin Volans.

Nýjast