Slæmt veður og leiðindafærð víða um land

Víða er leiðindafærð á vegum og hafa vegfarendur verið að lenda í erfiðleikum. Vegagerðin bendir á að víða sé hlýtt og því megi búast við mikilli hálku. Þá eru vegfarendur hvattir til þess að kynna sér upplýsingar um veður og færð áður en haldið er af stað. Víða er ekki mokstur eða önnur þjónusta á vegum á kvöldin og nóttunni. Raunar eru sumir vegir ekki í þjónustu nema fáa daga í viku. Upplýsingar um þjónustutíma eru á vef Vegagerðarinnar og í síma 1777.

Á Norðurlandi er víða mikil ofankoma og blint. Stórhríð er á Tjörnesi og óveður á Hólasandi og Mývatnsöræfum. Varað er við flughálku víða á Austurlandi. Fjarðarheiði er þungfær og þar er stórhríð. Óveður á Vatnsskarði eystra og þar er ófært. Það er varað er við flughálku víða á Suðausturlandi. Það er hálka og hvasst á Hellisheiði og í Þrengslum. Hálka er einnig víðast hvar á Suðurlandi. Flughált er þó á þjóðvegi 1 á milli Þjórsár og Markarfljóts. Hálkublettir eru á Reykjanesbraut og hálka eða hálkublettir á flestum vegum á Reykjanesi. Þæfingsfærð er á Suðurstrandarvegi. Á Vesturlandi er snjóþekja eða hálka víðast hvar. Vonskuveður er á vestanverðu Snæfellsnesi, stórhríð og ófærð – og raunar einnig í Álftafirði. Þæfingsfærð er á Svínadal. Ekkert ferðaveður er á sunnanverðum Vestfjörðum né heldur á Þröskuldum eða Steingrímsfjarðarheiði. Þæfingsfærð er á Gemlufallsheiði. Þungfært er á Ströndum.

Samkvæmt upplýsingum frá veðurfræðingi, verður hríðarveður, skafrenningur og takmarkað skyggni fram eftir degi um norðvestanvert landið, frá Snæfellsnesi vestur um og norður í Eyjafjörð. Suðvestan- og sunnanlands hefur hlánað. Hvöss S-átt í fyrstu, en lægir um tíma fyrir hádegi. Á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum gengur í NV storm 20 til 25 m/s um kl. 13 með krapahríð, en gengur niður síðdegis. Mjög hvasst á Suðurlandi og hviður allt að 35-40 m/s undir Eyjafjöllum frá því um kl. 14 til 17. Á fjallvegum Austfjarða má gera ráð fyrir stórhríðarveðri nú fyrir hádegi en gengur niður og hlánar um miðbik dagsins. Gengur í N- og NV-storm með snjókomu og skafrenningi norðanlands um kl. 16 til 18 og norðaustan- og austanlands heldur síðar eða um kl. 19 til 21 þá með snörpum hviðum sunnan undir Vatnajökli og á Austfjörðum fram á nóttina.



Nýjast