HK- menn voru mun ferskari fyrstu mínúturnar og mun líklegri til þess að skora. Það voru hinsvegar heimamenn sem skoruðu fyrsta markið. Það gerði Einar Sigþórsson á 14. mínútu leiksins, er hann skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu og heimamenn komnir í 1-0.
Á 35. mínútu náðu HK- menn að jafna. Hafsteinn Briem fékk þá boltann inn í teig heimamanna, lék á varnarmann Þórs og skoraði með góðu skoti. Staðan 1-1. Aðeins mínútu síðar bættu gestirnir við sínu öðru marki. Finnur Ólafsson fékk þá stungusendingu inn fyrir vörn Þórs og skoraði örugglega framhjá Atla Má í marki heimamanna. Staðan skyndilega orðin 2-1 HK í vil. Áður en dómarinn hafði flautað til hálfleiks höfðu gestirnir bætt við sínu þriðja marki og það gerði Stefán Jóhann Eggertsson af stuttu færi. Staðan í hálfleik, 3-1 HK í vil.
Heimamenn hófu seinni hálfleikinn af krafti. Á 48. mínútu fékk Þór dæmda vítaspyrnu þegar brotið var á Einari Sigþórssyni. Hreinn Hringsson fór á vítapunktinn og skoraði örugglega og minnkaði muninn fyrir Þór í eitt mark. Aðeins tveimur mínútum síðar vildu heimamenn fá aðra vítaspyrnu í leiknum er Hreinn Hringsson virtist vera togaður niður í teig gestanna er hann var að sleppa í gegn, dómarinn var hins vegar ekki á sama máli og ekkert dæmt.
Heimamenn reyndu hvað þeir gátu til þess að jafna leikinn. Sex mínútum fyrir leikslok fékk Aleksandar Linta dauðafæri er boltinn datt fyrir hann inn í teig gestanna en hann hitti boltann skelfilega og boltinn hátt yfir markið. Heimamönnum tókst ekki að jafna leikinn og lokatölur á Akureyrarvelli, 3-2 sigur HK- manna.
Eftir fimm leiki hefur Þór aðeins þrjú stig í deildinni og situr á næstaneðsta sæti. KA- menn eru í 5. sæti deildarinnar með sjö stig.