Skuldir Norðurorku hafa nánast ekkert lækkað á árinu

Þrátt fyrir að greitt hafi verið af lánum samkvæmt áætlun hafa gengisþróun og verðbætur valdið því að skuldir Norðurorku hf. hafa nánast ekkert lækkað fyrstu sex mánuði ársins og gæti það haft veruleg áhrif til hins verra á afkomu fyrirtækisins á árinu.  

Franz Árnason forstjóri Norðurorku segir þó engar hugmyndir vera uppi um hækkun á verðskrám enda sé fjárhagsstaða fyrirtækisins sterk. Ekki séu heldur uppi hugmyndir um nýjar lántökur. Stjórn Norðurorku hf. fór yfir uppgjör fyrirtækisins, þ.e.a.s. samstæðunnar Norðurorka hf. og Fallorka ehf., fyrstu 6 mánuði ársins á fundi sínum nýlega. Þar kom fram að ekki er um veruleg frávik að ræða frá fjárhagsáætlun ársins 2011.

Samkvæmt hálfsársuppgjörinu er rekstrarhagnaður  392,5 milljónir króna, fjármunatekjur og fjármagnsgjöld neikvæð um 262 milljónir króna og niðurstaða á efnahagsreikningi 9.176 milljónir króna. Handbært fé frá rekstri er 448 milljónir króna og handbært fé í lok tímabils er 429 milljónir króna.

"Áhrif kjarasamninga á afkomuna liggja enn ekki fyrir að fullu þar sem kjarasamningum er ekki lokið við iðnaðarmenn og vélfræðinga en í fjárhagsáætlun fyrir árið 2011 var reynt að taka tillit til þess að allir samningar voru lausir eða runnu út í byrjun ársins," segir Franz.

Um miðjan september nk. lætur Franz af störfum sem forstjóri Norðurorku en hann hefur stýrt félaginu frá því að Rafveita Akureyrar og Hita- og vatnsveita voru sameinaðar árið 2000. Hann var áður hitaveitustjóri á Akureyri. Ágúst Torfi Hauksson hefur verið ráðinn nýr forstjóri Norðurorku.

Nýjast