Skrýtnir tímar

Júlíus Júlíusson.
Júlíus Júlíusson.

Það var allt óvenjuhljótt í mínum bæ í morgun engin börn á leið í skóla og fáir á ferli. Það snjóaði aðeins í logni, hmmm dagur 232 frá áramótum sem að snjóar eða var það dagur 233 man það bara ekki! Enda er alveg hægt að kalla þennan harða vetur sem hófst með látum í byrjun desember „Kófið – 19“. Sumir tapa innkomu á þessum tímum en aðrir græða samveru  með fjölskyldunni t.d. flytja framhaldsskólabörnin sem eru erlendis og á heimavistum heim um stund.

Lærdómsríkt
Margir eru í sóttkví sumir jafnvel í sjálfskipaðri. Það er gott fyrir marga að vera út af fyrir sig, hafa tíma í smá sjálfsvinnu og leiða hugann að lífinu og tilverunni. Ég er sannfærður um að við lærum mikið af þessu og þetta muni verða til þess að við áttum okkur á að það getur allt gerst og við getum ekki gengið að hlutunum sem sjálfsögðum.
Það er svo mikilvægt að ALLIR standi SAMAN og fylgi leiðbeiningum til hins ítrasta. Það er alveg ljóst að það eru ekki allir sammála aðferðunum hverju sinni, enda er nýja sviðsmynd að finna á hverjum degi. Allir sem eru að taka þátt í verkefninu eru að gera þetta í fyrsta skipti og læra nýtt oft á dag.

Og allir með
Ég segi að LANG stærsti hluti landsmanna fylgir þessu og stendur þétt við bakið á frábærri framvarðasveit, jafnvel þrátt fyrir að vera ósammála aðferðum og það er frábært. Svo er einn og einn sem tuðar og reynir að gera lítið úr þessu og fara á svig við leiðbeiningar og hugsar um eigin afturenda og vill ekki skilja að þetta snýst um okkur ÖLL sem heild.

Höldum gleði hátt á lofti
Það er engin ástæða til að tapa gleðinni því það er fullt af hlutum til að gleðjast og mikilvægt að nota þennan tíma vel. Lífið heldur svo sannarlega áfram því þetta er nefnilega ekki heimsendirinn sem stundum er minnst á. Þó að almenningur sé að fylgja leiðbeiningum eftir bestu getu þá flokkast það ekki undir panikkástand. Þetta er bara nýtt og áhugavert verkefni sem þarf að sinna af festu og það getur svo sannarlega líka innihaldið gleðistundir. Þessi tími mun líða hratt og veirulaust vorið er innan seilingar.

Hreindýrið ætti að vera öruggt
Nú verða menn flottir á því og geta garanterað að öruggast er borða „Hrein“dýr í matinn og hafa kósý og kveikja á fullt af „sprittkertum“  Margir telja að það verði sprengja í barnsfæðingum eftir 8 – 11 mánuði  og ef að það fæðast  þríburar verða þeir skírðir Víðir, Þórólfur og Alma.

Njótið hvers augnabliks sem að lífið færir okkur.

-Júlíus Júlíusson



Athugasemdir

Nýjast