Skrifað undir samninga vegna starfsemi í Hofi

Rekstur Menningarhússins Hofs er nú óðum að taka á sig mynd, enda aðeins fimm mánuðir þangað til húsið verður opnað. Fulltrúar Akureyrarbæjar, Menningarfélagsins Hofs, Tónlistarskólans á Akureyri, Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og Akureyrarstofu skrifuðu í morgun undir samninga varðandi fjárframlög til rekstrar, sem og samstarfssamninga vegna fyrirhugaðrar starfsemi stofnananna í Hofi.  

Ljóst er að starfsemin í Hofi verður umfangsmikil og fjölþætt og að umtalsverð breyting verður á högum þeirra eininga sem munu hafa fast aðsetur í húsinu. Auk áðurnefndra aðila mun Leikfélag Akureyrar verða á meðal fastra notenda þar sem gert er ráð fyrir því að a.m.k. ein stór uppsetning verði á ári hverju á vegum Leikfélagsins í Hofi. Samhliða opnun Hofs færist rekstur Upplýsingamiðstöðvar ferðamála í húsið auk þess sem þar verður rekið kaffihús og veitingasala.

Áætlað er að framkvæmdum við húsið ljúki í maí og að í sumar verði unnið að lokafrágangi, stillingum og prufukeyrslu. Bókanir á fyrsta starfsári líta mjög vel út og óhætt er að lofa fjölbreyttri dagskrá þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi að sögn forsvarsmanna hússins. Menningarhúsið  Hof verður formlega opnað 28. ágúst 2010.

Nýjast