Skoskur miðjumaður til KA
Í dag gekk skoski miðjumaðurinn Brian Thomas Gilmour í raðir KA-manna og mun leika með liðinu sem eftir er tímabilsins í 1. deildinni. Gilmour er þegar kominn með leikheimild og verður því löglegur með KA í leiknum gegn HK á Akureyrarvelli á morgun kl. 18.15.
Gilmour kom til landsins sl. föstudag og æfði með KA-liðinu um helgina og í kjölfarið var gengið frá samningi við hann í dag, sem gildir út keppnistímabilið. Þetta kemur fram á heimasíðu KA.
Á heimasíðunni er jafnframt farið yfir ferli Brians. Þar kemur fram að hann sé fæddur 1987 og er því 24 ára gamall. Hann hóf sinn feril hjá hinu þekkta liði Glasgow Rangers og síðan hefur hann spilað með skosku liðunum Clyde, Queen of the South og Stenhousemuir, enska liðinu Lincoln City og finnska liðinu FC Haka, en með því liði spilaði Gilmour m.a. í Evrópukeppninni gegn danska liðinu Bröndby keppnistímabilið 2008-2009. Gilmour hefur einnig spilað með landsliðum Skotlands U-19 og U-20.