Skorað á bæjaryfirvöld að standa vörð um Leikfélag Akureyrar

Aðalfundur Leiklistarsambands Íslands, sem haldinn var 26. september, ályktar eftirfarandi vegna frétta af málefnum Leikfélags Akureyrar að undanförnu: "Leiklistarsamband Íslands skorar á bæjaryfirvöld á Akureyri að standa vörð um Leikfélag Akureyrar og tryggja áframhaldandi starfsemi þess þrátt fyrir tímabundna erfiðleika í starfsemi félagsins."

"Saga Leikfélags Akureyrar er merk, hún spannar um 100 ár en LA varð að atvinnuleikhús árið 1973, hið eina utan höfuðborgarsvæðisins.  Leikfélag Akureyrar er mikilvæg grein á íslenska leikhústrénu, það hefur verið einn burðarás íslensks leikhúslífs undanfarna áratugi og hefur haft gríðarlegt vægi í menningarmálum utan höfuðborgarsvæðisins. Enginn vafi er á því að leikhúsið hefur oft og tíðum einnig haft mikil áhrif á ferðaþjónustu og mannlíf allt á Eyjafjarðarsvæðinu. Eðlilegt er að kryfja hvað úrskeiðis hefur farið í starfseminni nú fyrir skemmstu og tryggja að slíkt endurtaki sig ekki.  Samhliða ber að minnast ótal merkra sigra leikhússins á langri sögu en starfsemi þess hefur oft á síðustu árum verið afar blómleg. LSÍ varar við því að möguleg mistök í rekstri og erfiðleikar sem spanna stutt tímabil opni fyrir umræðu um að leggja af starfsemi atvinnuleikhúss á Akureyri.  Það eru allar forsendur fyrir áframhaldandi metnaðarfullu starfi Leikfélags Akureyrar sem auðgar menningarlíf á Norðurlandi og landinu öllu," segir í ályktun Leiklistarsambands Íslands.

Nýjast