Sköpunargleðin heldur áfram í Gilinu

Listagilið á Akureyri.
Listagilið á Akureyri.

Þriðji Gildagur ársins verður á morgun, laugardaginn 25. september. Þá verða opnaðar tvær nýjar sýningar í Listasafninu og einnig verða opnanir í Kaktus og Deiglunni. Jafnframt verður upplestur í Deiglunni, listamannaspjall í Listasafninu, ný sýning í RÖSK RÝMI, seinni sýningarhelgi í Mjólkurbúðinni og margt fleira skemmtilegt um að vera.

Hefð er fyrir því að þegar Listasafnið opnar nýjar sýningar þá sameinist listamenn, hönnuðir og verslanir í kring um að skapa hálfgerða karnivalstemningu með opnunum, viðburðum, tónlist og tilboðum. Með þessu samstarfi hefur skapast afar skemmtileg stemning í Listagilinu á svokölluðum Gildegi, þar sem fólk nýtur menningar og listar sem og að hitta mann og annan.

Sýningarnar sem opnaðar verða í Listasafninu eru tvær. Fyrri sýningin er Vísitasíur eftir Bryndísi Snæbjörnsdóttur og Mark Wilson. Sýningin er hluti af listrannsóknarverkefninu Ísbirnir á villigötum, sem unnið er í samstarfi sérfræðinga á sviði myndlistar, þjóðfræði og náttúru- og umhverfisfræði. Markmið verkefnisins er að auka þekkingu á fjölþættum tengslum dýra, manna og umhverfis á tímum loftslagshlýnunar. Seinni sýningin er Ann Noël, Teikn og tákn. Ann Noël fæddist í Englandi 1944 en hefur verið búsett í Berlín frá 1980. Bakgrunnur hennar er í grafískri hönnun, prenti, ljósmyndun, málun og gjörningum.

Nánar um alla viðburði Gildagsins 25. september 2021 er að finna á gildagur.is


Nýjast