Skógræktarverkefnið vekur mikla athygli ferðagesta

Gestir skemmtiferðaskipanna hafa tekið vel í skógræktarverkefnið. Mynd/Þröstur Ernir
Gestir skemmtiferðaskipanna hafa tekið vel í skógræktarverkefnið. Mynd/Þröstur Ernir

Farþegar skemmtiferðaskipa sem komið hafa til Akureyrar í sumar hafa tekið vel í að kaupa trjáplöntur við höfnina að sögn Péturs Ólafssonar hafnastjóra á Akureyri. Trjánum er síðan plantað upp í Glerárdal við gömlu sorphaugana. „Þetta hefur vakið mikla athygli og í hverju einasta skipi eru farþegar sem kaupa plöntur,“ segir Pétur. „Hafnasamlagið leggur þungann í þetta og aðkoma farþegana er viðbót ef þeir vilja leggja sitt af mörkum.“

Eins og Vikudagur greindi frá sl. vetur eru Hafnasamlag Akureyrar í samstarfi við Vistorku, Akureyrarbæ og önnur fyrirtæki með verkefni í bígerð sem byggist á því að planta trjám til að sporna gegn mengun og kolefnisjafna útblásturinn frá skipum og flugvélum í andrúmsloftinu. Annars vegar er um að ræða skógrækt fyrir skemmtiferðaskipin og flugskóginn og hófst verkefnið í vor. Varðandi skemmtiferðaskipin er sérstakur trjástandur við höfnina þar sem ferðagestir geta sett nokkrar evrur í og keypt tré.

Verkefnið gengur út á að planta 1.500 trjám árlega. Pétur segir verkefnið koma til að vera. „Ég held að það sé alveg á hreinu. Við munum í það minnsta draga vagninn í því,“ segir Pétur.

Guðmundur H. Sigurðsson framkvæmdastjóri Vistorku segir að búið sé að skrá niður mörg fyrirtæki á Akureyri sem ætla vera með í verkefninu um flugskóginn, sem er að planta trjám fyrir þeirra starfsfólk sem ferðast á milli. „Við reiknum svo með að fara í verkefnið fyrir almenning með haustinu,“ segir Guðmundur. 

 

Nýjast