Skoða hvaða valkostir verða í forgangi

Íbúar í Svalbarðsstrandarhreppi velta því nú fyrir sér hvort hefja eigi sameiningarviðræður en íbúaf…
Íbúar í Svalbarðsstrandarhreppi velta því nú fyrir sér hvort hefja eigi sameiningarviðræður en íbúafundur um sameiningarmálin var haldinn nú í vikunni í Valsárskóla. Mynd: Elísabet Inga Ásgrímsdóttir

Íbúar í Svalbarðsstrandarhreppi velta því nú fyrir sér hvort hefja eigi sameiningarviðræður en íbúafundur um sameiningarmálin var haldinn nú í vikunni í Valsárskóla. Unnið er að greiningu á þeim valkostum sem fyrir hendi eru þegar kemur að sameiningu og segir Björg Erlingsdóttir sveitarstjóri að markmið þess sé að greina styrk- og veikleika, ógnanir og tækifæri ef til sameiningar sveitarfélagsins kemur.

„Á þessari stundu eru íbúar að velta þessu öllu fyrir sér, hvort eigi að hefja sameiningarviðræður við önnur sveitarfélög og ef það verður gert hvaða valkostir séu þar í forgangi. Einnig veltum við upp hvaða áhersluatriði ættu að vera í öndvegi hjá Svalbarðsstrandarhreppi í slíkum viðræðum,“ segir Björg.

Björg segir að samstarf sé við ráðgjafafyrirtækið RR-Ráðgjöf varðandi sameiningarvalkosti sem fyrir hendi eru. „Við fórum yfir þá möguleika sem íbúum Svalbarðsstrandarhrepps stendur til boða bæði til skemmri og lengri tíma,“ segir Björg.

Hefur áhrif á minni sveitarfélög

Verkefnum sveitarfélaga er að fjölga og segir hún stefnu stjórnvalda að styrkja umgjörð og grundvöll sveitarstjórnarstigsins þannig að tryggt sé að þau geti sinnt lögbundinni skyldu sinni. „Þetta hefur áhrif á minni sveitarfélög eins og Svalbarðsstrandarhrepp,“ segir hún.

Sveitarfélagið sótti um styrk í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til þess að vinna þessa vinnu en hvatinn að þeirri vinnu var fyrirhuguð lagasetning þar sem lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga átti að verða 1.000 íbúar. Fallið var frá lágmarksíbúafjölda innan sveitarfélags með lögum sem samþykkt voru í byrjun sumars en sú vinna sem liggur til grundvallar íbúafundinum mun  að sögn Bjargar nýtast komandi sveitarstjórn hvort heldur sem er til að rökstyðja sameiningu eða áframhaldandi stærð sveitarfélagsins.

MÞÞ


Athugasemdir

Nýjast