Umræðan um skjánotkun barna og ungmenna hefur verið hávær síðustu vikur. Í framhjá hlaupi er ábyrgð foreldra nefnd í þessu samhengi. Foreldrar sem fylgjast með umræðunni vita að jú, þeir hafa skyldum að gegna gagnvart skjánotkun barna sinna en hverjar eru þær eiginlega?
Í uppeldi barna okkar reynum við að kenna þeim jákvæðar venjur og siði sem munu gagnast þeim út lífið. Við reynum eftir fremstu getu að fræða þau um mikilvægi þess að borða næringarríka fæðu og að mikilvægt sé fyrir heilsu þeirra að hreyfa sig. Við viljum að börnin okkar geti tileinkað sér góða siði gagnvart sjálfum sér og öðrum og það er okkar heitasta ósk að þeim líði vel. Við kennum þeim að sama skapi á umhverfið í kringum sig og hvað ber að varast. Frá þriggja ára aldri fá börn á Íslandi sendar bækur heim til sín þar sem byrjað er að kynna umferðarreglurnar fyrir þeim og það er frábært að þau byrji frá unga aldri að læra á hætturnar í umhverfi sínu.
Nú stöndum við sem samfélag frammi fyrir nýjum áskorunum og þurfum í sameiningu að ákveða hvernig við tökumst á við þær. Tæknin er frábær, þróun er góð og tækin geta verið gagnleg. Samskipti við vini og ættingja víðsvegar um heiminn geta aukist, þau geta jafnvel haft jákvæð áhrif á tungumálakunnáttu barna og við höfum aðgengi að ótakmarkaðri þekkingu.
Það sem við heyrum hinsvegar oftast í umræðunni í samfélaginu eru skuggahliðar þessara tækninýjunga. Rannsóknir sýna að óhófleg skjánotkun getur til dæmis haft áhrif á svefn, andlega líðan, nám og minni, dregið úr samskiptum við fjölskyldu og vini og aukið líkur á ofþyngd og offitu. Þar að auki hefur skapast vettvangur til eineltis í gegnum tækin.
Hver er ábyrgð foreldra og afhverju er ,,tabú“ að ræða um það? Ef barnið okkar færi glæfralega yfir götu og það skapaðist hætta þá myndum við staldra við, ræða við barnið um umferðarreglurnar og minna á hvernig við högum okkur í umferðinni. Afhverju gildir ekki sama lögmál um reglur í tækjunum?
Í Barnalögum nr. 76/2003 kemur fram að börn eigi rétt á að njóta verndar og það er hlutverk forráðamanna að tryggja öryggi þeirra. Yfirleitt eru foreldrar að reyna sitt besta við að stýra skjánotkun og fylgjast með en það er hægara sagt en gert. Tæknin þróast hratt og erfitt er að fylgjast með öllu því nýja sem kemur fram, börnin eru líka klók og finna leiðir fram hjá þeim hömlum sem foreldrar setja. Það virðist þó, því miður, vera í sumum tilfellum svo að foreldrar gleymi eftirliti með þessum þætti í lífi barnanna. Þar getum við sem samfélag bætt okkur með því að fræða og benda á grafalvarlegar hætturnar sem leynast í tækjunum eins og hefur verið gert í fjölmiðlum á síðustu vikum. Til þess að breyting eigi sér stað þurfum við að hafa hátt um þessi mál. Við þurfum líka að líta inn á við hvert og eitt okkar, skoða eigin hegðun og bæta hana ef við á.
Hvað getum við gert akkúrat núna til þess að taka þátt í þessari breytingu í samfélaginu?
Skjánotkun er ekki tabú. Ef barnið okkar lendir í vandræðum í tengslum við skjánotkun hvort sem um er að ræða vegna vanlíðanar, svefntruflanna, er þolandi eða gerandi í eineltismáli eða af öðrum ástæðum, tölum þá saman og finnum lausnir alveg eins og við myndum gera ef börnin okkar gleyma umferðarreglunum. Með því að takast á við vandann eða vinna stöðugt að því að kenna barninu að umgangast tækin á jákvæðan hátt – þannig tökum við ábyrgð.
Höfundur er doktorsnemi í Heilbrigðisvísindum og foreldra- og uppeldisráðgjafi hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni.