Jón Birgir Guðmundsson útibússtjóri Sjóvár á Akureyri afhenti Sigrúnu Björk Jakobsdóttur forseta bæjarstjórnar fyrsta skiltið um nágrannavörslu. Sigrún Björk afhenti svo Sævari Helgasyni skiltið, sem réðst strax í að setja það upp á horni Beykilundar. Sigrún Björk lýsti yfir mikilli ánægju með að þetta verkefni væri komið í gang og hún vonast til að íbúar bæjarins taki virkan þátt í því. Undir það tóku þeir Sævar og Jón Birgir. Síðar í dag verður verkefnið kynnt forsvarsmönnum hverfisnefnda á Akureyri.
Daníel Guðjónsson yfirlögregluþjónn á Akureyri var einnig mættur í Beykilundinn í dag. Samkvæmt upplýsingum frá honum hefur ekki orðið aukning í innbrotum og þjófnuðum á Akureyri. Hann segir að innbrot í bíla flest tengjast fáum einstaklingum og komi í bylgjum. Bæði innbrot í bíla og hús tengjast gjarnan fíkniefnaneytendum og hefur gengið vel að upplýsa slík brot síðustu ár. Daníel bendir jafnframt á að sérstakt átak í fíkninefnamálum sem nú hefur staðið í eitt ár, hafi skilað sér í færri innbrotum og þjónuðum frá því að það hófst, miðað við árið á undan.
„Einn af kostunum við að búa á Akureyri hefur ævinlega verið að þar býr fólk við mikið öryggi og stafar lítil hætta af glæpum. Nágrannavarslan er liður í að tryggja að svo verði áfram. Þannig stuðlum við líka að samkennd meðal íbúanna og virkjum þá í því að gera góðan bæ ennþá betri, " segir Hermann Jón Tómasson, bæjarstjóri á Akureyri.
Sjóvá gefur út leiðbeiningar fyrir þá sem vilja skipuleggja nágrannavörslu og býður einnig til námskeiðs þar sem kenndar verða þær aðferðir við nágrannavörslu sem þykja hafa heppnast best. Í leiðbeiningunum má sjá hvernig lágmarka má hættu á innbrotum og skemmdarverkum. Þátttakendur í nágrannavörslunni fá m.a. gátlista sem auðvelda þeim að fara yfir heimili sitt til að kanna hvort það er öruggt og hvaða atriði þarf að laga. Einnig fylgja leiðbeiningar um öryggi bílsins, ferðavagna, reiðhjóla, mótorhjóla og sumarhúsa.
„Það er áratuga reynsla af skipulagðri nágrannavörslu víða um heim og við viljum leggja okkar af mörkum til þess að festa virka nágrannavörslu í sessi hér á landi. Okkar framlag er handbók með ítarlegum leiðbeiningum ásamt námskeiðum og aðgengi að sérfræðingum á sviði forvarna. Framhaldið er síðan í höndum íbúanna sjálfra," segir Sigurjón Andrésson, markaðsstjóri Sjóvár.
Þeir sem hafa áhuga á að koma nágrannavörslu á í götunni sinni eða heilu hverfi geta kynnt sér málið á sjova.is eða snúið sér til Forvarnahússins.