Skipulagsnefnd Akureyrarbæjar hefur hafnað erindi frá Brynjari Einarssyni f.h. Þingvangs ehf, þar sem hann óskaði eftir að óstofnuðu hlutafélagi yrði veitt vilyrði fyrir lóð við Þórsnes neðan Krossanesborga vegna fyrirhugaðrar stöðvar fyrir seiða- og bleikjueldi. Einnig var óskað eftir að fá skýrslur vegna jarðfræðirannsókna sem gerðar hafa verið á svæðinu ásamt skipulagstengdum gögnum. Í bókun skipulagsnefndar segir m.a. að umrætt svæði sé skilgreint sem óbyggt svæði í aðalskipulagi og er að hluta til í einkaeign og auk þess í útleigu sem erfðafesta. Ekkert deiliskipulag er til af svæðinu og hafa því engar jarðfræðirannsóknir verið gerðar á vegum Akureyrarbæjar. Bent skal á að talsvert er um fornleifar á svæðinu sem rannsaka þarf áður en svæðinu verði raskað.