Skipulagsmál í Cornwall

Inga Dagný Eydal.
Inga Dagný Eydal.

Okkur hjónakornunum er farið eins og sjálfsagt mörgum öðrum um þessar mundir, hugarferðalögin eru farin að sækja í sig veðrið og við grípum okkur æ oftar í spjalli um gengin spor og farin ferðalög. Við erum ákaflega elsk að heimilinu okkar, en tíminn sem veiran skæða hefur sett ferðalögum skorður er jú orðinn full langur. Eitt af okkar allra bestu ferðalögum var farið sem oftar, á meðan afkomendur okkar bjuggu í Bretaveldi og við gátum sameinað að hitta þau í London og keyra svo um grænar breskar sveitir.

Bærinn Polperro á Cornwall skaganum er í uppáhaldi. Pínulítið sjávarpláss með hvítkölkuðum, skrýtnum og töfrandi húsum. Svo sem ekkert mikið að gerast, litlar verslanir og kaffihús þar sem hægt er að fá skonsur með sultu og te, eitt safn um sögu staðarins og nokkur gallerí. Þó lifa líklega allir íbúarnir á ferðamönnum í stað veiða áður fyrr og allir þessir ferðamenn sækja í það að ráfa um þröngar göturnar, hlusta á máfana garga, setjast við höfnina og njóta andrúmsloftsins í litla bænum. Þar má ekki keyra, í staðinn eru ferðamennirnir keyrðir á vögnum með trébekkjum frá bílastæði í útjaðri bæjarins.

Engum dettur í hug að spilla útliti og andblæ þessa litla bæjar með háhýsum og engum dettur í hug að hann eigi að hafa á sér borgarbrag. Vissulega eru nýrri hús byggð upp með hlíðunum ofar í bænum en þess er vandlega gætt að þau séu í samræmi við þau sem fyrir eru og að fortíðinni sé sýnd virðing. Bretar eru enda snillingar í því að varðveita og nýta gamla muni og skilja þýðingu þeirra.

Enginn getur þó sakað þá um að hafa ekki skilning á uppbyggingu og þýðingu nútíma arkitektúrs og háhýsa en þeir virðast skilja betur en margur hvar slíkur stíll hæfir og hvar ekki. Það er fátt framsæknara en skynsamleg íhaldsemi, það sannar túrisminn í Polperro.


Athugasemdir

Nýjast