Skipulagslýsing vegna deiliskipulags Drottningarbrautarreits verði kynnt

Meirihluti bæjarráðs Akureyrar samþykkti á fundi ráðsins í gær, tillögu skipulagsnefndar, sem lagði til við bæjarstjórn að skipulagslýsing vegna deiliskipulags Drottningarbrautarreits, verði kynnt almenningi og leitað verði umsagnar Skipulagsstofnunar og annarra umsagnaraðila um skipulagslýsinguna. Bæjarráð hefur fullnaðarafgreiðsluheimild í sumarleyfi bæjarstjórnar. Ólafur Jónsson D-lista sat hjá við afgreiðslu málsins í bæjarráði.  

Ólafur lagði fram eftirfarandi tillögu, sem var felld í bæjarráði með þremur atkvæðum L-listans: "Sú verkáætlun sem hér er til afgreiðslu fyrir Drottningarbrautarreitinn byggir að öllu leyti á hugmyndum og stefnu um miðbæinn sem kemur fram í aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018. L-listinn boðaði endurskoðun á aðalskipulagi bæjarins og að ná þyrfti góðri sátt um skipulag miðbæjarins frá Samkomuhúsinu í suðri að Gránufélagsgötu í norðri. Ekkert bólar á þeirri endurskoðun og ekki var mikið að heyra um stefnu meirihlutans um skipulag miðbæjarins í umræðu um skýrslu formanns skipulagsnefndar á dögunum í bæjarstjórn. Meirihlutinn hefur ekki komið fram með neina heildarsýn eða stefnu í þessu mikilvæga skipulagsmáli. Hér er um stórt og mikið mál að ræða sem hefur valdið deilum í bæjarfélaginu og greinilega ekki full sátt um. Þessi mál á að ræða í bæjarstjórn í heyranda hljóði. Hér er einnig margt óljóst varðandi veigamikil atriði s.s. fyrirkomulag umferðarmiðstöðvar og eins atriði er varðar bílastæðamál, stækkun miðbæjarsvæðis og/eða ný svæði fyrir verslun og þjónustu. Í ljósi þessa er það algjörlega óásættanlegt að farið sé af stað með þessa vinnu án umræðu í bæjarstjórn. Ég legg því til að umræðu og afgreiðslu þessarar verkáætlunar fyrir deiliskipulagsvinnu Drottningarbrautarreitar verði vísað til fyrsta fundar bæjarstjórnar eftir sumarleyfi."

Hermann Jón Tómasson S-lista og Guðmundur Baldvin Guðmundsson B-lista óskuðu bókað á fundi bæjarráðs: "Við lýsum ánægju okkar með að vinna við skipulag miðbæjarins er nú endurvakin. Það er þó grundvallaratriði að horfa til miðbæjarsvæðisins í heild við þessa vinnu til að tryggja að uppbygging í miðbænum samræmist þörfum og vilja íbúa og atvinnulífs. Skipulag Drottningarbrautarreits þarf að taka mið af þeirri heildarmynd og erfitt er að taka afstöðu til skipulagstillagna fyrir reitinn meðan heildarstefna um uppbyggingu á svæðinu er ekki ljós. Þess vegna hvetjum við meirihluta L-listans til þess að efna nú þegar til samráðs um skipulag miðbæjarins í heild þannig að skýr sýn um framtíðaruppbyggingu miðbæjarins liggi fyrir áður en deiliskipulag þessa reits kemur til afgreiðslu bæjarstjórnar."

Andrea Hjálmsdóttir V-lista óskaði bókað: "Ítreka að við gerð deiliskipulagsins er nauðsynlegt að horfa til miðbæjarskipulagsins í heild sinni og varanlegra framtíðarlausna á miðbæjarsvæðinu."

Nýjast