Skipulagslýsing af Svæðisskipulagi Eyjafjarðar verði endurskoðað

Umfjöllun vantar um atvinnumál og ferðaþjónustu að mati skipulagsnefndar. Mynd: Hörður Geirsson.
Umfjöllun vantar um atvinnumál og ferðaþjónustu að mati skipulagsnefndar. Mynd: Hörður Geirsson.

Á fundi skipulagsnefndar Akureyrarbæjar í dag var tekið fyrir erindi, þar sem Bjarni Kristjánsson f.h. Samvinnunefndar um Svæðisskipulag Eyjafjarðar sendir inn til samþykktar skipulagslýsingu af Svæðisskipulagi Eyjafjarðar ásamt fylgiriti um helstu forsendur. Skipulagsnefnd bendir á fyrri bókanir nefndarinnar frá 2008 og 2010 um efnisþætti sem hún samþykkti sem áherslur í vinnslu svæðisskipulagsins.

Í innsendri skipulagslýsingu er ekki tekið á öllum þeim efnisflokkum sem nefndin óskaði eftir og er því óskað eftir að skipulagslýsingin verði endurskoðuð með það í huga og lögð fyrir nefndina til samþykktar að nýju.
Skipulagsnefnd telur eftirfarandi efnisflokka vanta í skipulagslýsinguna en bendir að öðru leyti á fyrri bókanir um áherslur og efnisþætti:
1. Fráveitumál. Afar lítið er fjallað um fráveituna að öðru leyti en því að Eyjafjörður verði skilgreindur sem "síður viðkvæmur viðtaki" og Pollurinn skilgreindur sem "viðkvæmur viðtaki". Þarf að skilgreina ítarlegar.
2. Sorpmál. Skipulagsnefnd telur nauðsynlegt að í lýsingunni komi fram stefna um hvernig sorpmálum verði háttað á svæðinu til lengri tíma litið.
3. Umhverfismál. Texta vantar um almenna umfjöllun um náttúruna, stefnu um umferð á fjöllum, bæði vélknúna og aðra, t.d. á hestum eða gangandi manna.
4. Atvinnumál - ferðaþjónusta. Umfjöllun vantar um þennan mikilvæga málaflokk.

Nýjast