Skipulagsferli vegna Dalsbrautar verður eins opið og mögulegt er
Framkvæmdir við lagningu Dalsbrautar hefjast á næsta ári og verður lokið á árinu 2012, en vera má að ekki verið hægt að ljúka malbikun á allri götunni fyrr en á árinu 2013 þar sem jarðvegsdýpi er mikið á ákveðnum kafla og ef til vill þarf að láta hann síga. Ný lög hafa tekið gildi um framkvæmdir af þessu tagi og er unnið eftir þeim. Samkvæmt þeim þarf að vinna skipulagslýsingu af svæðinu þar sem fram kemur hvaða verk eigi að vinna og hvernig vinnu verði háttað. Oddur Helgi Halldórsson formaður bæjarráðs, segir að málið verði nú sent umsagnaraðilum og þá geti bæjarbúar kynnt sér skipulagslýsinguna, en hún mun liggja frammi á skrifstofu Akureyrarbæjar og verður einnig aðgengileg á vefsíðu bæjarins. „Skipulagslýsingin verður aðgengileg öllum þeim sem áhuga hafa á að kynna sér hana í allt sumar, en síðan munum við kynna hana ásamt deiliskipulagi svæðisins á almennum borgarafundi 16. ágúst nk.," segir Oddur.
Skipulagsnefnd og bæjarráð munu á ný fjalla um málið á fundum í lok ágúst og að því loknu fer það í lögbundið auglýsinga- og kynningarferli sem stendur yfir frá því í lok ágúst og til 12. október. Á því tímabili gefst bæjarbúum kostur á að senda inn athugasemdir við framkvæmdina eða koma með ábendingar. Skipulagsnefnd mun fara yfir innsendar athugasemdir á fundi 26. október en að sögn Odds verður málið endanlega afgreitt úr bæjarstjórn 1. nóvember nk.
Hann segir að samkvæmt skipulagslýsingu sé málið unnið í samráði við skólayfirvöld í Lundarskóla og eigendur fasteigna á svæðinu, m.a. KA. „Þetta er eins opið ferli og mögulegt er, íbúar geta kynnt sér málið vel í sumar og komið svo að athugasemdum þegar fyrir þær verður opnað með haustinu. Vissulega hefðum við getað verið fyrr á ferðinni með þessa framkvæmd, en höfum dregið úr hraðanum m.a. til að fólk geti kynnt sér málin gaumgæfilega og við t.d. hefjum ekki hefðbundið auglýsingaferli vegna framkvæmdarinnar fyrr en í haust þegar fólk er á ný komið heim úr sumarleyfum," segir Oddur.