Skiptinám eykur víðsýni

Sigurlína Káradóttir, alltaf kölluð Sirrý, er á 3. ári í viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri. Hú…
Sigurlína Káradóttir, alltaf kölluð Sirrý, er á 3. ári í viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri. Hún stundar þetta misserið skiptinám í SDU í Óðinsvé í Danmörku og tók alla fjölskylduna með

Sigurlína Káradóttir, alltaf kölluð Sirrý, er á 3. ári í viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri. Hún stundar þetta misserið skiptinám í SDU í Óðinsvé í Danmörku og tók alla fjölskylduna með: „Mér hefði aldrei dottið í hug að það væri í boði að fara með alla fjölskylduna með í skiptinám”, segir Sirrý sem lét slag standa þegar tækifærið bauðst. „Þegar farið er sem skiptinemi með fjölskyldu eru áherslur aðeins aðrar en ef maður er einn, ákvörðunin er þeim mun stærri en á sama tíma er þetta svo frábært tækifæri til þess að prófa að búa í öðru landi og að gefa börnunum sínum og fjölskyldu sinni þá gjöf að upplifa aðra menningu og nýjar venjur, aðrar áherslur og meiri samveru sem er svo dýrmæt. Þessi tími er ekki bara minn að upplifa, að þróast, læra og þroskast heldur okkar allra og við erum svo sannarlega að njóta okkar í botn,“ segir Sirrý.

„Nýja Erasmus áætlunin leggur mikla áherslu á jöfn tækifæri stúdenta til skiptináms. Nú er því hægt er að sækja um ýmsa viðbótarstyrki vegna aukakostnaðar m.a. vegna framfærslu barna sem er frábær viðbót,“ segir Hildur Friðriksdóttir, verkefnastjóri á Miðstöð alþjóðasamskipta við Háskólann á Akureyri.

 Fjölbreytt tækifæri

Sirrý 2

Við Háskólann á Akureyri eru fjöldi tækifæra til skiptináms. Þetta misserið eru átta stúdentar frá Háskólanum á Akureyri í skiptinámi við Kaupmannahafnarháskóla, Gautaborgarháskóla, SDU í Óðinsvé, University of New England og háskólunum á Grænlandi og í Bilbao til að nefna nokkra. Þess utan fóru tveir hjúkrunarfræðinemar í tíu vikna klínískt nám í Danmörku þetta misserið í gegnum norræna samstarfsnetið Nordlys. „Nýlega gerðum við samstarfssamning við háskóla á Tenerife sem er einstaklega heppilegt þar sem nú er í boði beint flug héðan frá Akureyri í sólina á Tene,“ segir Hildur og bætir við „Við erum með yfir 200 samstarfssamninga við háskóla í 45 löndum þannig að eru ýmsir spennandi kostir í boði. Þeir sem vilja halda sig við kunnuglegar íslenskar veðuraðstæður geta t.d. valið Grænland, Finnland eða Norður- Noreg og þeir sem eru að sækja í sól og sumarhita geta valið fjarlægari staði s.s. Bilbao á Spáni, Gíbraltar eða Tenerife.“

Þá tekur HA á hverju misseri á móti áhugasömum stúdentum í skiptinám. Nú stunda 49 stúdentar nám við háskólann í skiptinámi og er óhætt að segja að þeir setji alþjóðlegan blæ á háskólaumhverfi HA. Þetta er óvenju fjölbreyttur hópur í ár sem kemur alls staðar að úr heiminum t.d. Grænlandi, Japan, Bandaríkjunum, Tékklandi, Úkraínu, Ungverjalandi, Sviss, Hollandi og Þýskalandi en rúmlega þriðjungur skiptinema þetta misserið eru Þjóðverjar.

„Þessa dagana erum við að undirbúa litlu jólin fyrir skiptinemahópinn. Það er alltaf gaman að kynna íslenskar jólahefðir en í ár verður helsta áskorunin að velja vegan mat fyrir hluta hópsins,“ segir Hildur að lokum.

Sirr+y


Athugasemdir

Nýjast