Hlutur Hvamms í stóriðjulóðinni er ríflegur eða um einn þriðji hluti hennar allrar en Búlandshlutinn er fremur smár. Lóðin verður að líkindum nefnd iðnaðarlóð og verður um 60 ha að stærð. Kynntar hafa verið hugmyndir um að koma fyrir á lóðinni stórri umskipunarhöfn. Axel Grettisson oddviti Arnarneshrepps segir að það mál sé á viðkvæmu stigi sem stendur en þó muni að líkindum lítið gerast fyrr en eftir fund Samvinnunefndar um svæðisskipulag Eyjafjarðar sem í eiga sæti fulltrúar allra sveitarfélaga á svæðinu, en hann verður haldin í byrjun nóvember. Um tíma hefur verið horft til þess að koma upp umskipunarhöfn vegna siglinga um Norðurhöf á þessu svæði. Bent er á að ís á hafinu norður af landinu bráðni hraðar en menn gerðu ráð fyrir og talið fullvíst að innan tíðar muni siglingarleið opnast um hafið sem aftur hefur í för með sér mikla umferð stórra flutningaskipa. Hafnasamlag Norðurlands og Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar hafa unnið að því að kynna hugmynd um stóra umskipunarhöfn á iðnaðarlóðinni við Dysnes.
Axel segir að nægt landrými sé þó til staðar á lóðinni við Dysnes þó landeigendur tveggja jarða hafi óskað eftir að draga lönd sín út, eða um 60 ha eins og fyrr segir. Bendir hann á að innan hreppsins séu skiptar skoðanir um ágæti hugmynda um umskipunarhöfnina og hugnist ekki öllum að "hálfur hreppurinn verði lagður undir malbik," eins og hann orðar það. Margir hafi verið fylgjandi því að eins konar "stóriðju" yrði komið upp á lóðinni, en nú renni tvær grímur á marga íbúa. "Við myndum gjarnan vilja fá meiri upplýsingar, fá meira upp á borðið, okkur þykir við ekki búa yfir nægum upplýsingum til að meta hvernig þetta mun koma út," segir Axel sem hefur vísað frekari umræðu um það til Samvinnunefndarinar, "en ég vil líka gjarnan fá að heyra skoðanir annarra sveitarfélaga í Eyjafirði á þessu stóra máli, því vissulega snertir það fleiri en bara okkur." Þá kveðst Axel einnig bíða eftir að Hafnasamlag Norðurlands kynni málið fyrir öllum sveitarstjórnum á svæðinu svo menn viti um hvað verið sé að ræða, "og hvort það er þetta sem Eyjafjörður á að sækja eftir," segir hann.