Skipakomum til Húsavíkurhafna tekið að fjölga á ný

Það er ekki bara farþega og flutningaskip sem hafa fjölgað komum sínum til Húsavíkur. Snekkjur hafa …
Það er ekki bara farþega og flutningaskip sem hafa fjölgað komum sínum til Húsavíkur. Snekkjur hafa einnig lagst að bryggju á Húsavík en það var fremur sjaldgæft áður. Á myndinni er lúxussnekkjan Calypso við Húsavíkurhöfn í ágúst 2020. Mynd/epe

Gaumur, sjálfbærniverkefni á Norðausturlandi hefur uppfært upplýsingar um samgöngur á sjó á vaktsvæði sínu. Fylgst er með fjölda farþega- og flutningaskipa sem koma til Húsavíkurhafnar en gögn eru fengin frá hafnarstjóra hafna Norðurþings.

Þar kemur fram að komur  farþegaskipa hefur tekið að fjölga á nýjan leik en 21 farþegaskip og tvær snekkjur komu til Húsavíkur á árinu 2021. Heildarfjöldi farþega á síðasta ári var 3.061.

Samgöngur

Árið 2020 fækkaði mjög skipakomum til Húsavíkur. Árið á undan höfðu farþegaskip til að mynda 29 sinnum viðkomu á Húsavík en ekkert farþegaskip kom til Húsavíkur á árinu 2020 vegna kórónuveirufaraldursins. Hins vegar komu snekkjur fimm sinnum til hafnarinnar en þær hafa hingað til verið sjaldgæf sjón. Ekki liggja fyrir upplýsingar um fjölda farþega í snekkjunum en fjöldi farþega með skemmtiferðaskipum árið 2019 voru 4.810 og áhafnarmeðlimir voru 2.969. 

Sömu sögu er að segja af komum flutningaskipa en þeim fækkaði á milli áranna 2019 og 2020 vegna framleiðslustöðvunar kísilvers PCC á Bakka úr 65 í 42. Þeim fjölgaði hins vegar á ný á milli áranna 2020 og 2021 úr 42 í 57. Innflutningur með skipunum nam 204.161 tonni en útflutningu 29.717 tönnum. 

Gaumur: Sjálfbærniverkefnið á Norðausturlandi er vöktunarverkefni þar sem fylgst er með þróun mála á sviði samfélags, umhverfis og efnahags á svæðinu frá Vaðlaheiði í vestri til og með Tjörneshreppi í austri.


Nýjast