Skilgreining á svæðisbundnu hlutverki Akureyrar

Akureyri. Mynd/María H. Tryggvadóttir.
Akureyri. Mynd/María H. Tryggvadóttir.

Samöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur ákveðið í samvinnu við Akureyrarbæ og Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra að skipa verkefnahóp um skilgreiningu á svæðisbundnu hlutverki Akureyrar. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar.

Hópurinn hefur það hlutverk að meta hvernig hægt er að haga samstarfi ríkis og sveitarfélaga um þau atriði sem fram koma annars vegar í byggðaáætlun um sjálfbæra þróun byggða um allt land og að skilgreindir verði meginkjarnar í hverjum landshluta og hins vegar í sóknaráætlun Norðurlands eystra um borgarhlutverk Akureyrarbæjar.

Hópnum er falið að draga saman þær áskoranir sem Akureyrarbær sem stærsti þéttbýlisstaður utan höfuðborgarsvæðisins stendur frammi fyrir, afla upplýsinga og leiða saman lykilaðila til að ræða mögulega stefnumótun og aðgerðir til lengri og skemmri tíma.

Bæjarráð hefur skipað Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra og Hildu Jönu Gísladóttur bæjarfulltrúa í verkefnahópinn. Auk þeirra verður fulltrúi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins í hópnum ásamt bæjarstjórum Fjallabyggðar og Norðurþings fyrir hönd SSNE. Með hópnum munu einnig starfa sérfræðingar frá ráðuneytinu, SSNE, Byggðastofnun, Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri og fleiri aðilum eftir atvikum.

Hilda Jana fagnar því að verkefnahópurinn hafi verið skipaður og segist hlakka til að taka þátt í þeirri vinnu sem framundan er. „Akureyri á að vera hin borgin á Íslandi. Ég er sannfærð um að ef okkur tekst að skilgreina hlutverk bæjarins á þeim forsendum þá verði það öllum íbúum Norðausturlands, sem og öllum Íslendingum, til hagsbóta,“ segir Hilda Jana á vef bæjarins. 

 

Athugasemdir

Nýjast