Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli opið í dag

Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli er opið í dag frá kl. 10-19. Þar er nú logn og glaðasólskin, nægur snjór og frábært skíðafæri. Skíðasvæðið var opið alla páskavikuna og þótt aðstæður hafi verið misjafnar komu að meðaltali um 1.000 manns á skíði á dag þessa vikuna, að sögn Guðmundar Karls Jónssonar forstöðumanns í Hlíðarfjalli. “Þessir páskar fara ekki í sögubækurnar, þeir voru blautir og ekki stórir. Það rigndi á laugardag og sunnudag en svo fór að snjóa sl. mánudag, annan í páskum. Þá voru páskarnir líka búnir, gestir farnir að halda heim á leið og heimafólkið búið að skíða nóg.”

Snjóbretta- og tónlistarhátíðin AK EXTREME teygir anga sína upp í Hlíðarfjall þessa dagana, þótt einnig sé dagskrá í miðbænum. Í næstu viku fara Andrésar Andar leikarnir á skíðum fram í Hlíðarfjalli og er búist við hundruðum keppenda líkt og undanfarin ár. “Við lokum svæðinu í miðri viku eftir Andrés en verðum með opið um helgar ef aðstæður leyfa.” Fyrir tveimur árum voru gestir Hlíðarfjalls um 100.000 talsins, sem var metár en í fyrra voru gestirnir tæplega 65.000. Guðmundur vonast til að gestir svæðsins á þessum vetri verði í kringum 60.000. “Við höfum fengið tæplega 50.000 gesti í vetur og ef næsta helgi verður góð, sem ég á von á og við fáum margar heimsóknir í kringum Andrésar Andar leikana, þá sýnist mér að við ættum að ná um 60.000 manns,” sagði Guðmundur.

Nýjast